145. löggjafarþing — 28. fundur,  4. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[15:48]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er rétt sem hér hefur verið sagt, þetta er mikilvægt mál. Með því er okkur að takast að taka á slitabúum föllnu bankanna með það að markmiði að verja lífskjör hér, að það sé grundvallarforsenda.

Hv. þm. Árni Páll Árnason kom inn á það áðan að seðlabankastjóri hefði talað um að það væri bara eitt skot í byssunni og það tengist 12. mars en þá er spurningin: Hvert ætluðu menn að beina því skoti? Hv. þm. Árni Páll Árnason ritaði fljótlega eftir 12. mars grein á vefsíðu sína þar sem hann fór yfir það og sagði, með leyfi forseta:

„Ein leið í þessu efni væri sú að í aðildarviðræðunum yrði samið um að evrópski seðlabankinn mundi veita fyrirgreiðslu til að unnt yrði að fjármagna útflæðið allt strax í upphafi eða á fárra ára tímabili, með endurgreiðslu yfir lengra tímabil. Slík lausn mundi væntanlega valda því að krónan félli minna en ella við afnám haftanna og greiða fyrir því að rétt verð fengist á hana fljótt …“

Það er nefnilega svoleiðis að það var sett skot í byssuna en með löggjöfinni sem samþykkt var hér og undir forustu ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks (Forseti hringir.) var byssunni miðað á kröfuhafa.