145. löggjafarþing — 29. fundur,  4. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[18:53]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Til andsvara við þessari ágætu spurningu hv. þm. Frosta Sigurjónssonar bið ég hann að eiga orðastað við félaga sína, hv. þm. Karl Garðarsson, hv. þm. Ásmund Einar Daðason og hæstv. forsætisráðherra Sigmund Davíð Gunnlaugsson, sem hafa margsinnis borið mér það á brýn að hafa talað fyrir hagsmunum kröfuhafa þegar ég benti á þá einföldu staðreynd að þeir, eins og allir sem eiga eignir á Íslandi, njóti stjórnarskrárvarinna réttinda. Það er gott að hv. þm Frosti Sigurjónsson sker sig úr í Framsóknarflokknum þegar kemur að málefnalegri umræðu um þetta mál og honum til hróss. En það væri ágætt ef hann tæki umræðu um það við þessa félaga sína sem allir hafa haldið því fram við mig og við þjóðina að stjórnarskrárvernd eignarréttar gildi ekki um erlenda kröfuhafa. Ég er sammála honum um að þeir njóta auðvitað réttinda þar eins og allir aðrir sem eiga eignir hér.

Ég les umsögn Indefence ekki með þeim hætti að hún segi að gera eigi eignir þeirra upptækar. Þeir meta einfaldlega hættuna með öðrum hætti en Seðlabankinn og það er það sem skiptir máli að sé grandskoðað. Þess vegna er veikleiki málsins og umbúnaður þess svo gríðarlegur. Það er ekki boðlegt í lýðræðisríki þar sem það er ekki bara einn handhafi sannleikans sem heitir Seðlabanki, heldur fullt af sérfræðingum, fullt af háskólastofnunum, fullt af rannsóknarstofnun, að þá skuli mál unnin í leyni og síðan sýnd handahófskennt og keyrð fram með slíkum hraði að sérfræðingum gefst ekki færi á að rannsaka þau. Það hefur ekki gefist vel þegar það hefur áður verið gert á Íslandi og algjör óþarfi af hálfu ríkisstjórnarinnar og stjórnarmeirihlutans að endurtaka þau vinnubrögð eða endurvekja þau.