145. löggjafarþing — 29. fundur,  4. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[19:18]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka spurninguna. Ég hef einmitt verið ein af þeim sem vilja styðja góð málefni óháð því hvaðan þau koma. Það var þannig að ég var mjög jákvæð gagnvart þessum tveimur valkostum sem voru settir upp og mér fannst ágætissamráð haft í upphafi, en síðan hefur hallað undan fæti. Mér finnst óþægilegt að ekki fáist svör við þeim spurningum sem maður leggur fram og mér finnst svo skringilegur þessi viðsnúningur. Það væri gott að heyra frá stjórnarþingmönnum sem töluðu mjög mikið fyrir því að við værum að fara í miklar aðgerðir með kylfur á lofti til þess að takast á við hrægammana. Á einhvern hátt hefur margt gjörbreyst og það væri gott að vita af hverju. Ég hef ekki fengið nægilegar skýringar á því og finnst það miður.

Ég er bjartsýn manneskja að eðlisfari. Það er auðvelt að smitast af bjartsýninni sem hefur komið fram hjá meðal annars seðlabankastjóra og forsprökkum hæstv. ríkisstjórnarinnar. Í mér situr þó uggur. Ég hefði viljað að lært hefði verið af þeirri tortryggni sem var meðal annars réttmæt hvað varðar fyrsta Icesave-samninginn, að lært hefði verið af því og tryggt að við værum upplýst og að þegar kallað væri eftir gögnum og spurninga spurt væri þeim svarað skilmerkilega. Ég hef ekki orðið vör við að þeim spurningum sé svarað skilmerkilega sem ég lagði til að mynda fyrir þegar við fengum nýverið kynningu á þessum pakka ríkisstjórnarinnar.