145. löggjafarþing — 29. fundur,  4. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[19:47]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég er nú ekki upphafsmaður að gaddakylfu- og fallbyssumyndlíkingunum. Þær komu úr munnum annarra fyrir síðustu alþingiskosningar fyrst, hygg ég.

Ég nálgast stöðugleikaskattinn ekki endilega þannig. Ef það er þannig að stöðugleikaskatturinn sé í grófum dráttum rétt útreiknaður til að ná utan um þann vanda sem tilvist búanna hérna með umfangsmiklum krónueignum skapar og hann gerir ráð fyrir því hvernig sá vandi gæti ýtrastur orðið ef þessar eignir héldu áfram að vaxa inni í hagkerfinu, þá stendur hann sem slíkur. Þá þurfum við ekki að biðja einn eða neinn neinnar afsökunar á honum. Þá er hann engin sérstök gaddakylfa heldur bara skattur sem er grundvallaður á traustum og réttmætum forsendum.

Hefðu kröfuhafarnir verið tilbúnir til að horfast í augu við að þeir yrðu að verðfella krónueignir sínar ef ekki hefði komið sú kylfa á loft, svo við notum þá mynd aftur? Já, það held ég að þeir hefðu verið vegna þess að þeir hafa vitað það lengi og þeir hafa reiknað það út sjálfir og þeir hafa átt viðskipti á þeim grunni að stærstur hluti þessara krónueigna yrði verðlaus. Við sjáum það bara á genginu og kröfunum að menn hafa almennt ekki gert ráð fyrir því að innlendi eignarhluti búanna yrði að miklu.(Gripið fram í.)

Frá því 2011 og reyndar frá því 2009 hafa íslensk stjórnvöld, fyrst í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, boðað að þessar eignir mundu ekki fara óskertar út úr hagkerfinu. Sett voru í gang uppboð sem voru auðvitað ekkert annað en verðfelling á krónum aflandskrónueigenda í hagkerfinu og boðaður var útgönguskattur. Það flaug fyrir að sá skattur gæti farið í 35–40%, alla vega í nokkur ár, þannig að það er miklu minna nýtt í þessu en margir hverjir vilja vera láta.(Forseti hringir.)

Ég sagði í ræðu í gær að ég væri ekki í aðstöðu til þess (Forseti hringir.) að vefengja það að stöðugleikaframlögin með fjárbindingunni leystu þennan hluta (Forseti hringir.) vandans sem slíkan í grófum dráttum til næstu sjö ára. Við þurfum að horfa lengra fram í tímann en það er verið að skutla drjúgum hluta vandans lengra inn í framtíðina og binda hann aðeins til sjö ára.