145. löggjafarþing — 29. fundur,  4. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[20:59]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Ég tel að það hafi verið mikil mistök að láta þingið ekki koma að þessu máli. Það voru mistök gerð í júní þegar þetta var lagt þannig upp að það væri eingöngu í höndum Seðlabankans og hæstv. fjármálaráðherra hvernig niðurstöður yrðu í málinu, hvort valin yrði sú leið að fara fram með stöðugleikaframlag eða skattinn. Það eru mistök og ég heyrði það á hv. formanni efnahags- og viðskiptanefndar hér í ræðustól að það hefðu hugsanlega verið mistök að málið færi ekki aftur fyrir þingið.

Ég tel að verið sé að taka gífurlega alvarlega ákvörðun með því að fara þessa leið án þess að kanna alla þá gagnrýni sem hefur komið fram á málið. Það hefur það mikil gagnrýni komið fram á málið og þetta er það stórt mál fyrir þjóðarbúið að það á ekki að taka ákvörðun fyrr en kannað er hvort sú gagnrýni á rétt á sér. Eins og þetta liggur fyrir núna er verið að skjóta vandanum til framtíðar og menn ætla (Forseti hringir.) bara að treysta á guð og lukkuna og krossa fingur og vona hið besta. Það er ekki boðlegt fyrir almenning og fyrirtæki í landinu. Ég segi nei við þessu máli.