145. löggjafarþing — 29. fundur,  4. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[21:05]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Það er nauðsynlegt fyrst við erum hér að taka umræðuna í víðu samhengi í tengslum við þetta mál að stíga aðeins upp og fagna þeim gríðarlegu tímamótum sem verða í lok þessarar atkvæðagreiðslu þegar við ryðjum úr vegi formlega síðustu hindrununum fyrir því að slitabúin geri upp og dreifi eignum til kröfuhafa án áhrifa á gengi íslensku krónunnar. Menn hafa mikið rætt um að það sé fullkomin óvissa í þessu efni. Fyrir þinginu liggur 25 blaðsíðna skýrsla Seðlabankans um að greiðslujafnaðaráhrifunum hafi verið eytt og markaðirnir segja það sama. Lánshæfi Íslands rís, verðbréfamarkaðir á Íslandi taka við sér, greiningardeildir bankanna eru jákvæðar. Jú, vissulega hafa einhverjir lýst efasemdum um að þetta sé fullkomin aðferðafræði, en það eru örfáir aðilar. Og jafnvel hörðustu gagnrýnendur þeirrar stöðu sem uppi er núna ljúka yfirleitt máli sínu á því að segja: Ja, ég er að minnsta kosti ekki alveg viss.

Frú forseti. Ég er alveg viss. Ég er alveg viss um að við erum með góða leið í höndunum. Við erum að tryggja farsæla lausn á þessu erfiða máli sem við höfum þurft að glíma við frá árinu 2008.