145. löggjafarþing — 29. fundur,  4. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[21:09]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Að segja að maður sé svo viss eins og hæstv. fjármálaráðherra gerði hér áðan hlýtur að valda því að við veltum því fyrir okkur hvers vegna hann opnaði ekki á allar upplýsingar um málið og hjálpaði öllum hér inni að verða jafn vissir vegna þess að óvissan í loftinu er gríðarleg. Ég er ekki jafn viss og hæstv. fjármálaráðherra um að menn hafi valið að fara bestu leiðina vegna þess að það sem hér er kallað lokaskrefið í endurreisn efnahagslífsins af formanni þingflokks framsóknarmanna felur í sér í fyrsta lagi að ríkið er komið með 2/3 bankakerfisins í fangið. Í öðru lagi felur það líka í sér að aflandskrónuvandinn er óleystur, snjóhengjan er hér enn, þetta leysir ekki þann vanda. Og í þriðja lagi erum við að fara inn í óvissuferð með mögulega sölu eigna og hvað kemur út úr þeim. (Forseti hringir.) Þetta er öll vissan og þetta er lokaskrefið í endurreisn íslensks efnahagslífs. Heyr á endemi. Ég er ekki jafn viss og ég mun sitja hjá.