145. löggjafarþing — 29. fundur,  4. nóv. 2015.

um fundarstjórn.

[21:27]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Hér hefur verið vísað til samkomulags þingflokksformanna frá því á mánudaginn var og það er rétt sem hér hefur komið fram að við gerðum ráð fyrir því að málinu sem verið var að greiða atkvæði um yrði lokið í vikunni. Við gerðum líka ráð fyrir því að fjármálaráðherra mælti fyrir fjáraukalögum. Þetta var allt með fyrirvara um framvinduna. Það voru engin loforð gefin um að neitt yrði klárað, bara þannig að það sé alveg skýrt. Þingflokksformenn líta ekki svo á að þeir semji málfrelsið af sínum þingmönnum. Umræðan tekur þann tíma sem hún þarf.

Ég vil hins vegar til lausnar leggja það til að hæstv. fjármálaráðherra mæli fyrir fjáraukalögum, við ljúkum andsvörum við framsöguræðu hans og slítum svo fundi. Það er enginn bragur á því að fjáraukalög af slíku umfangi sem hér eru undir fari inn í nóttina vegna þess að þau verða ekki kláruð í kvöld. Það liggur þannig að umræðan um þetta mál verður ekki kláruð í kvöld þannig að best færi á því að hæstv. fjármálaráðherra fengi framsögu og við létum svo umræðuna duga í kvöld.