145. löggjafarþing — 29. fundur,  4. nóv. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[21:58]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vona að við getum farið betur yfir þetta þegar við förum í umræðu. Ég vænti þess að hæstv. ráðherra verði þá í þingsal til að fara betur yfir þessi mál.

Mig langar til að spyrja í seinna andsvari út í áætlanir um arð frá bönkunum. Það gerist slag í slag að arður er miklu meiri en áætlað hefur verið. Við í fjárlaganefnd vildum reyna að áætla betur fyrir árið 2015 en gert var í fjárlögunum vegna þess að okkur grunaði að áætlunin væri allt of lág sem kom svo á daginn.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Hvernig getur staðið á því að fjárlög eru samþykkt seint í desember með ákveðnum upphæðum og síðan eru arðgreiðslur Landsbankans samþykktar af sama aðila fyrir hönd eiganda bankans nokkrum vikum seinna? Er ekki hægt að fá þessar upplýsingar áður en fjárlögin eru samþykkt? Góð áætlanagerð skiptir máli, bæði á tekjuhlið og gjaldahlið, fyrir okkur sem eigum að veita framkvæmdarvaldinu aðhald og fylgjast með framkvæmd fjárlaga.