145. löggjafarþing — 29. fundur,  4. nóv. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[22:02]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég gerði grein fyrir því að liðurinn Ófyrirséð útgjöld er mjög vel nýttur í þessu frumvarpi, sérstaklega vegna kjaraþróunar.

Hvað viðvíkur niðurstöðu gerðardóms þá varðaði hún einungis lítinn hluta vinnumarkaðarins. Að því marki sem gerðardómur veitti vísbendingu fyrir þá sem hann batt þá tel ég að ekkert skorti upp á að frumvarpið sýni þau áhrif. En hins vegar er ekki gengið út frá því í frumvarpinu að gerðardómur muni gilda fyrir aðra en þá sem hann batt. Ég tel að okkur í ráðuneytinu hafi verið ákveðin vorkunn í þeirri stöðu að þegar frumvarpið var tekið saman stóðu enn yfir kjaradeilur við stóran hóp opinberra starfsmanna og þess vegna held ég þeim fyrirvara til haga að við erum enn að meta endanleg áhrif af samningum þessa árs fyrir árið í heild og munum, ef þörf krefur, koma með tillögur til breytinga áður en málið er afgreitt héðan.