145. löggjafarþing — 29. fundur,  4. nóv. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[22:06]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég var að vonast eftir því að við mundum fá lítið og krúttlegt frumvarp til fjáraukalaga að þessu sinni, því að við höfum nóg að gera í fjárlaganefnd. En svo er ekki og enn og aftur er ótrúlega mikið af liðum hérna sem eiga ekkert erindi í frumvarp til fjáraukalaga.

Það vakti athygli mína að hæstv. ráðherra skyldi segja að þessi ríkisstjórn hefði aldrei sett liði inn á fjáraukalagafrumvarp sem ekki ættu heima þar, því að ég er enn að jafna mig eftir fjáraukalagafrumvarpið 2013 þegar það var meira að segja beðið um aukafjárveitingu vegna þess að forsetaembættið þurfti að búa til fleiri fálkaorður. Ég hvet hæstv. fjármálaráðherra til að lesa nefndarálit minni hlutans, bæði árið 2013 og 2014.

Núna erum við til dæmis með gamlar sögur eins og Framkvæmdasjóð ferðamannastaða þar sem verið er að tala um 850 milljónir í þessu frumvarpi. Í fyrra voru það umtalsverðar upphæðir, ég man það ekki, 600 og eitthvað milljónir, og mig minnir að það hafi líka verið 2013. Er hæstv. ráðherra ekki sammála því að ófært sé að geta ekki gert betri áætlanir en þetta (Forseti hringir.) og vera sífellt að koma með þennan lið aftur inn á fjáraukalög?