145. löggjafarþing — 29. fundur,  4. nóv. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[22:10]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Það væri brot á fjárlögum að hækka ekki gjaldskrána þrátt fyrir að þingið hefði hafnað þeirri tillögu sem hér er lögð fyrir þingið. Fallist þingið hins vegar á tillöguna er með því tekin afstaða til þess sem lagt er upp með af heilbrigðisráðherra, að gjaldskráin verði ekki hækkuð þrátt fyrir boðuð áform í því efni. Það eru margar ástæður fyrir því að heilbrigðisráðherra hefur horfið frá áformum um hækkun gjaldskrárinnar og það hefur gerst ítrekað. Hún hefur hækkað örlítið frá gerð samnings við sérfræðilækna.

Hér hefur lengi verið haldið uppi umræðu um það í þinginu að vegna þessara áforma hafi kostnaðarhlutdeild sjúklinga verið stóraukin. Niðurstaðan með þessu er hins vegar sú að ríkið hefur létt verulega undir með kostnaðarþátttöku sjúklinga vegna sérfræðilækningaþjónustu.