145. löggjafarþing — 30. fundur,  10. nóv. 2015.

framlagning stjórnarmála.

[13:38]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Mig langar til að gagnrýna skort á þingmálum frá ráðherrum. Fyrir vikið hafa margar nefndir lítið að gera og það setur þingstörfin í uppnám. Það er reyndar ekki nýtt að þingstörfin séu í uppnámi á hinu íslenska Alþingi, en það hlýtur að vera eitthvað sem við viljum breyta. Ég heyri að ráðuneytin hafa greinilega nóg að starfa miðað við þá frestun sem var verið að kalla eftir varðandi svör við skriflegum fyrirspurnum, en þetta gengur ekki svona. Við í Bjartri framtíð munum ekki samþykkja afbrigði á málum sem koma inn eftir mánaðamótin, vegna þess að ráðherrarnir og ráðuneytin verða að vinna þetta betur. Þetta er alls ekki nógu gott. Ég kalla eftir því að ráðherrar drífi sig með málin inn í þingið þannig að við getum unnið þau sómasamlega hér.