145. löggjafarþing — 30. fundur,  10. nóv. 2015.

framlagning stjórnarmála.

[13:43]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég verð að taka undir með þeim sem hér hafa talað því að þrátt fyrir að ein eða tvær nefndir hafi haft eitthvað að gera þá dugar það ekki til þegar stór hluti þingmannahópsins situr hér og bíður eftir málum sem ríkisstjórnin vill fá afgreidd fyrir jól. Við ræddum það síðast á fundi menntamálanefndar í morgun að á þingmálaskránni eru 50 mál sem nefndinni er ætlað að vinna á þessum þingvetri og það er aldeilis ótækt að ætlast til þess af því að þar inni eru eins og víða annars staðar stór og þung mál sem við viljum ekki vinna í hraði þegar við þurfum þess ekki og eigum ekki að þurfa þess.

Auðvitað veltir maður því fyrir sér hvað það er sem valdi því að ráðuneytin ráða ekki við það sem þau eru að gera. Þeirrar spurningar þarf að spyrja því að það er augljóst að það er eitthvað sem stoppar, hvort sem verið er að kostnaðarmeta það eða hvað sem verið er að gera. Ég tek undir með hv. þm. Árna Pál Árnasyni þegar hann kvartar yfir því að verið sé að biðja um frest í annað sinn frá menntamálaráðuneytinu. Ég er líka með fyrirspurn þar inni þar sem búið er að framkvæma hluti sem hefur ekki verið svarað hér, og er algerlega ótækt.