145. löggjafarþing — 30. fundur,  10. nóv. 2015.

framlagning stjórnarmála.

[13:44]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Nú eru búnir tveir mánuðir af þessu þingi og staðan er enn þannig að eftir því sem mér sýnist eru þrír ráðherrar sem enn hafa ekki skilað einu einasta þingmáli til þingsins. Það er þannig samkvæmt starfsáætlun að ný þingmál, sem eiga að koma á dagskrá fyrir jólahlé, þurfa að berast skrifstofu Alþingis fyrir lok nóvembermánaðar, þ.e. eftir 20 daga. Þetta er starfsáætlun sem við höfum hér samþykkt og byggjum starf okkar á.

Ég vil hvetja ráðherra ríkisstjórnarinnar og ríkisstjórnarflokkana til að girða sig í brók og halda dampi. Ég velti því fyrir mér hvort um er að kenna almennum vandræðagangi eða hvort þetta snýst um skort á verkstjórn, af því að oft höfum við nú séð afurð þess að skortur er á verkstjórn og hver maður er að vinna í sínu horni. Það gengur ekki að Alþingi líði fyrir það að ekki sé verið að stýra hér verkefnum.