145. löggjafarþing — 30. fundur,  10. nóv. 2015.

framlagning stjórnarmála.

[13:47]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla að taka upp hanskann fyrir forseta. Mér sýnist þingmenn vera að lýsa miklu ástandi sem er á einhvern hátt réttlætanlegt því ég hef talað fyrir því og talaði um það víða að það voru algjör mistök að vera að flýta þingsetningu samkvæmt þingskapalögum. Það er búið að hræra svo mikið í þingskapalögum undanfarin fimm til tíu ár að þingið er vart starfhæft. Ég hef til dæmis aldrei skilið af hverju fallið var frá því að fyrsti þingdagur væri 1. október ár hvert. Ég bara skil það ekki, sem birtist svo í því að það eru ekki næg verkefni fyrir þingið.

Eins vil ég minna á það, virðulegi forseti, að hér þýðir ekki fyrir þingmenn og koma upp og skammast út í það að ekki séu komin mál frá ráðherrunum. Hér liggja í bunkum óteljandi þingmannamál bæði frá stjórn og stjórnarandstöðu, en þau komast ekki á dagskrá þingsins þrátt fyrir það að það sé málefnaþurrð því þá er búið að taka upp eitthvert kvótakerfi í forsætisnefnd sem leiðir af sér að þingmenn koma ekki sínum málum á dagskrá. Hér vísa ég í (Forseti hringir.) mjög brýn mál sem ég er með, lagaskrifstofu Alþingis og skilgreiningu náttúruauðlinda. Þetta sýnir að þingið er komið í algjöra (Forseti hringir.) óvissu og við þetta verður ekki vel við unað, virðulegi forseti, og tek ég undir með stjórnarandstöðunni í þetta sinn.