145. löggjafarþing — 30. fundur,  10. nóv. 2015.

kynferðisbrot gagnvart fötluðum.

[13:58]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegi forseti. Ég beini fyrirspurn til hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra. Tilefnið er fréttir og umræða í síðustu viku um ásakanir um kynferðisbrot á sumardvalarheimili fyrir fatlaða fyrir rúmu ári. Í þeirri umræðu kom fram að Landssamtökin Þroskahjálp hafa í 15 ár kallað eftir auknu eftirliti með sumardvalarheimilum og greint frá ásökunum um óviðeigandi framkomu gagnvart skjólstæðingum.

Ég held að ég tali fyrir munn allra hér í þessu húsi, og tvímælalaust í samfélaginu miðað við umræðuna, að þolinmæði fyrir ofbeldi og slæmri framkomu, kynferðisofbeldi eða öðru ofbeldi, er ákaflega takmörkuð. Það hlýtur að vera á forræði framkvæmdarvalds að hafa yfirumsjón með sínum stofnunum, en sömuleiðis þeim úrræðum sem hægt er að segja að séu tengd opinberum aðilum. Ég kalla eftir og spyr hæstv. ráðherra hvort hún sé ekki sammála því að löngu tímabært sé að setja reglugerð um sumardvalarheimili og aðra þjónustu á vegum þriðja aðila til þeirra sem búa við fötlun og eiga sérstaklega undir högg að sækja. Í því samhengi minni ég auðvitað á, eins og við hjá Bjartri framtíð höfum gjarnan gert hérna, mikilvægi þess að Ísland fullgildi samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Ég geri mér grein fyrir að sá samningur er ekki á valdsviði hæstv. ráðherra en tel fullvíst að hún sé sammála mér um að fullgilding sé eitthvað sem þurfi að hraða.