145. löggjafarþing — 30. fundur,  10. nóv. 2015.

kynferðisbrot gagnvart fötluðum.

[14:02]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegi forseti. Ég þakka ráðherra fyrir svarið og fagna landssamráðinu sem hún segir frá. Það er mikilvægt að við tökum þá umræðu áfram. Bent hefur verið á varðandi mál Nýja bæjar, sem tengist þeim ásökunum sem voru í umræðunni í síðustu viku, að fullt tilefni væri til að setja af stað rannsókn þar. En það er ekki bara mikilvægt að lýsa yfir góðum hug heldur líka að vera praktísk.

Samkvæmt lögum um málefni fatlaðs fólks er það ráðherra sem fer með yfirstjórn málefna fatlaðs fólks og ber að hafa eftirlit með framkvæmd laganna, þjónustu og starfsemi og rekstri sveitarfélaga og annars. Ég hvet því ráðherra til að setja reglugerð um þessi heimili og þessa þjónustu. Einnig vil ég hvetja okkur til að vera praktísk í því efni og setja meiri kraft í málefni NPA eða notendastýrða persónulega aðstoð, sem er þjónusta (Forseti hringir.) sem mun geta komið í veg fyrir svona vandamál í framtíðinni.