145. löggjafarþing — 30. fundur,  10. nóv. 2015.

makrílveiðar smábáta.

[14:07]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspurnina frá hv. þingmanni. Ég held að þingmaðurinn hafi komist algjörlega rétt að orði þegar hann fór yfir ástæður þess að menn veiddu ekki makríl á smábátum á síðasta sumri. Það var fyrst og fremst vegna göngumynsturs makrílsins sem sýnir enn á ný að þótt stofninn hafi verið hér um allnokkurt skeið núna og satt best að segja vaxið í íslenskri lögsögu og styrkt stöðu sína, mælingar sýndu fram á að 37% af stofninum í Norður-Atlantshafi reyndust vera í íslenskri lögsögu, þá gekk hann ekki hérna upp á grunnslóðina í því magni sem hann hefur gert á liðnum árum. Það urðu því veruleg vonbrigði fyrir smábátaútgerðina, og auðvitað landið í heild sinni, að geta ekki nýtt sér þessa gjöfulu auðlind.

Það spilar að sjálfsögðu fleira inn í eins og hv. þingmaður kom inn á. Það var líka lægra verð og það var kannski aðalástæðan fyrir því að menn lögðu ekki af stað í veiðarnar á meðan þeir höfðu meira upp úr því að stunda aðrar veiðar, til að mynda strandveiðar og einnig hafði grásleppan verið með betri hætti í ár en á undanförnum árum.

Fyrirkomulagið var, eins og réttilega kom fram hjá hv. þingmanni, annars vegar úthlutun til bátanna til að þeir ættu þess kost að fá hámarksverð, því að það hefur sýnt sig að það er besta leiðin ef menn hafa fyrirsjáanleikann, vita hvenær á að veiða og þurfa ekki að fara í ólympískar veiðar á versta tíma þar sem fiskurinn er ódýrastur og lélegastur, heldur getur veitt hann þegar hann er dýrmætastur. Hins vegar var líka 2 þús. tonna pottur sem menn gátu sótt í og leigt sér heimildir en vegna verðsins, og auðvitað þess að það var enginn fiskur, þá forðuðust menn það líka og spöruðu sér þann kostnað.

Fyrirkomulagið er ævinlega til skoðunar. Ég get ekki fullyrt hvort breytt verður frá þessu fyrirkomulagi en aðalatriðið er að ef við gætum tryggt að makríllinn hagaði (Forseti hringir.) sér alltaf með sambærilegum hætti og við vissum hvar hann væri þá gætum við kannski stýrt veiðunum betur en ella.