145. löggjafarþing — 30. fundur,  10. nóv. 2015.

makrílveiðar smábáta.

[14:10]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil ítreka að til þess að fá hámarksafrakstur fyrir smábátasjómennina er besta leiðin að þeir viti hvað þeir geta veitt og geti tímasett það með því að kvótasetja aflahlutdeildirnar á báta. Það er besta fyrirkomulagið og þannig fá menn hæst verð, bæði þjóðhagslega og fyrir sjálfa sig. Það er hins vegar líka nauðsynlegt að koma til móts við þá sem höfðu ekki nægilega aflareynslu ef makríllinn hagar sér með einhverjum öðrum hætti en verið hefur. Þannig að ég held að það hafi verið skynsamleg leið að vera með pott sem menn gátu sótt í.

Því miður var það ekki fullnægjandi á síðustu vertíð fyrst og fremst vegna þess að makríllinn gekk ekki á grunnslóð og einnig vegna þeirrar staðreyndar að verð á makríl, sérstaklega til smábáta, var allt of lágt og menn töldu hreinlega ekki rekstrargrundvöll fyrir veiðunum.

Fyrirkomulagið verður að sjálfsögðu skoðað. Eins og menn þekkja var ekki hægt að fara með nokkurn skapaðan hlut hér í gegnum þingið síðastliðið sumar. Nú standa yfir dómsmál og framkvæmdarvaldið verður að fá einhverjar leiðbeiningar frá dómstólum um hvaða fyrirkomulag á að vera á þessu í framtíðinni þegar ekki er möguleiki að klára málið hér í þinginu.