145. löggjafarþing — 30. fundur,  10. nóv. 2015.

landbúnaður og búvörusamningur.

[14:42]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegur forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir áhugaverða umræðu um þetta mikilvæga mál. Ég hef nefnilega velt fyrir mér af hverju komi ekki mun stærri hópur að búvörusamningunum en einungis landbúnaðarráðuneytið fyrir hönd ríkisstjórnarinnar og svo hagsmunasamtökin Bændasamtök Íslands. Ég get spurt: Hvar eru neytendur til dæmis í þessari umræðu og aðrir sem eiga hagsmuna að gæta?

Núna þegar verið er að vinna nýja búvörusamninga fyndist mér lag að draga fleiri að borðinu. Ég vonast til að ráðherra svari því hérna á eftir hvort svo verði ekki.

Búvörusamningarnir eru líka, eins og hefur verið komið inn á, nokkuð einhæfir. Ég mundi vilja sjá meiri fjölbreytni í íslenskum landbúnaði og að mönnum væri gert kleift að fara aðeins út fyrir kassann í framleiðslu sinni. Þetta er auðvitað hluti af byggðastefnu þar sem menn fá í rauninni greitt fyrir að sinna landinu, rækta það upp og sjá um það. Þannig er það í Evrópusambandinu. Það finnst mér vera eitthvað sem við ættum að skoða. Mér finnst líka svolítið áhyggjuefni, eins og ég hef upplifað það, að landbúnaðarstefnan sé einhvern veginn ígildi einhverrar byggðastefnu. Þetta hangir auðvitað saman en byggðastefna á Íslandi hefur verið mjög léleg og ómarkviss og tilviljanakenndar ákvarðanir hafa verið teknar til að reyna að bjarga hinu og þessu í staðinn fyrir að hafa eitthvert heildarplan. Ég velti fyrir mér hvort það sé af því að menn hafi alltaf litið á landbúnaðarstefnu sem hina eiginlegu byggðastefnu. Það er bara ekki nóg þó að hún sé auðvitað hluti af málinu.

Ég þakka fyrir þessar umræður og hlakka til að hlusta áfram.