145. löggjafarþing — 30. fundur,  10. nóv. 2015.

landbúnaður og búvörusamningur.

[14:44]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S):

Herra forseti. Ég vil sömuleiðis þakka hv. þm. Herði Ríkharðssyni fyrir að hefja þessa umræðu og hæstv. landbúnaðarráðherra fyrir hans svör. Hér koma fram þeir punktar, í umræðum um landbúnaðarmál á Íslandi, að við erum tilbúin að hafa á þeim mjög sterkar skoðanir og hlaða á landbúnaðinn mörgum hlutverkum og verkefnum eins og hv. þm. Hörður Ríkharðsson fór yfir. Það er verið að hlaða á landbúnaðinn ýmsum þáttum sem eiga illa samleið hver með öðrum. Hann dró það mjög vel fram í spurningu sinni, sem ég vil gera að umtalsefni, til hæstv. ráðherra og leitast við að ræða það út frá þeim staðreyndum.

Höfum við náð markmiðum búvörusamninga seinni ára? Ég held að þær skýrslur sem hæstv. ráðherra vitnaði til, bæði Háskólans á Akureyri, sem kom út nýlega, og Hagfræðistofnunar háskólans, um mjólkursamninginn, hafi í aðalatriðum svarað því: Já, við höfum í aðalatriðum gert það. Við höfum náð að lækka verð til neytenda á mjólkurvörum með því að tryggja á sama tíma hlut bænda í endanlegu útsöluverði. Við höfum náð aðalatriðum í markmiðum í sauðfjársamningi og skýrsla Háskólans á Akureyri um sauðfjársamninginn er mjög athyglisverð að því leyti að þar er lögð fram með fræðilegum hætti greining á kjötmarkaðnum og sýnd áhrif annarra kjötgreina á afkomu sauðfjárbænda eða víxlverkun afkomu milli einstakra búgreina. Það sem ég sakna úr skýrslu Háskólans á Akureyri er að þeir rökstyðja mjög vel að sækja mætti 12,5% meira verð út á markaðinn fyrir lambakjöt í dag, samkvæmt þeirra greiningu, en koma svo sem ekki með neina analýsu á því hvernig hægt væri að gera það.

Síðan er það byggðahlutverkið, sem hv. þingmaður fjallaði um, sem var næstur á undan mér. Þá getum við líka sagt að við höfum náð mörgum af þeim áföngum sem við höfum rætt á undanförnum árum. Ef við horfum allt aftur til ársins 1989, þar sem er upphaf búvörusamninga af þeirri gerð sem við höfum í dag, þá voru útgjöld til landbúnaðarmála, með einföldum beinum framreikningi, úr ríkissjóði 26 milljarðar króna en eru í dag rétt rúmir 10. (Forseti hringir.) Og þá spyrjum við: Hvað varð um fjármunina sem þar skeikar?