145. löggjafarþing — 30. fundur,  10. nóv. 2015.

landbúnaður og búvörusamningur.

[14:51]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka fyrir þessa umræðu sem hefur um margt verið mjög góð. Það er alveg augljóst að landbúnaður á Íslandi stendur á tímamótum, bæði hvað varðar hinn nýja samning við Evrópusambandið, sem mun taka gildi á næstu árum, og eins vegna endurnýjunar á búvörusamningi. Það er mjög mikilvægt að menn noti þau tækifæri sem gefast við þessi tímamót og meti áhrif beggja samninga á til dæmis byggðaþróun í landinu. Þá verður mér hugsað til hins mikla landbúnaðarhéraðs sem ég er fulltrúi fyrir á Alþingi, þ.e. Suðvesturkjördæmi, en stórhætta er á því ef menn vanda sig ekki að það verði nokkur héraðsbrestur út af tollabreytingunum.

Ég vil líka segja að það eru út af fyrir sig vonbrigði að sú mikla hagræðing sem náðst hefur í landbúnaði, sérstaklega í mjólkuriðnaði, hafi ekki skilað sér að fullu til neytenda. Maður gerir sér ekki alveg grein fyrir því hvar þetta strandar en böndin berast að þeim sem ráða versluninni í landinu því að greinilegt er að hagræðingin, sem hér hefur verið farið mjög vel yfir, hefur ekki skilað sér.

Það er hins vegar sem betur fer þannig á Íslandi að hér um bil hvert einasta mannsbarn getur gert sér grein fyrir því þegar það fer út í búð hversu mikil beingreiðsla er á hvern unnin lítra eða kíló vegna þess að ólíkt því sem er í Evrópusambandinu, þar sem landbúnaðarstyrkir eru mjög ógagnsæir og almennir og erfitt að henda reiður á þeim, er mjög auðvelt á Íslandi að gera sér grein fyrir því til dæmis hversu mikil beingreiðslan er á hvert kíló af lambakjöti.

Að öðru leyti þurfum við líka að taka til í þessum umræðum, taka til aðfangakosti bænda, þ.e. orkukostnaðinn, orkuafhendinguna, og að sjálfsögðu þurfum við að aðgæta vel að hér séu aðföng (Forseti hringir.) vistvæn. Ég vil sérstaklega nefna þar að við höfum möguleika á að framleiða á Íslandi áburð með (Forseti hringir.) sjálfbærri nýtingu vatnsfalla og það ætti að vera okkur mikil hvatning til þess og liður í því að við eigum hér og eignumst alvöru vistvæna framleiðslu.