145. löggjafarþing — 30. fundur,  10. nóv. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[15:06]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Þegar sú ákvörðun var tekin á miðvikudagskvöldið að hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra mundi mæla fyrir málinu og taka við andsvörum og umræður mundu halda áfram síðar þá áttaði ég mig ekki á því að hæstv. ráðherra væri ekki á landinu og gæti ekki verið með okkur hér í dag. Þetta var þingflokksformönnum hins vegar ljóst. Ég vil spyrja hvort staðgengill hæstv. ráðherra verði ekki örugglega hér í salnum til að (Forseti hringir.) fylgjast með umræðunni.

(Forseti (EKG): Hæstv. menntamálaráðherra, staðgengill hæstv. fjármálaráðherra, er kominn í hús og er væntanlegur í salinn von bráðar og forseti gerir ráðstafanir þess vegna.)

Herra forseti. Það er leitt að sjá enn og aftur að hlutverk fjáraukalaganna er hunsað. Það virðist vera orðin lenska að skauta fram hjá fjárreiðulögunum þar sem hlutverk fjáraukalaga er tíundað. Í hlutverki og efni fjáraukalaganna felst að allar fyrirsjáanlegar fjárráðstafanir komi fram í fjárlögum en í fjáraukalögum innan fjárhagsársins verði leitað eftir heimildum fyrir þeim fjárráðstöfunum sem ekki er hægt að sjá fyrir við afgreiðslu mála. Í inngangi með skýringum með frumvarpinu sem við ræðum er þetta tekið fram með skýrum hætti, en síðan koma tillögur um mörg mál sem voru algjörlega fyrirséð og reyndar ekki aðeins fyrirséð af hv. þingmönnum heldur hlaut það að vera öllum ljóst að meira þyrfti til dæmis að setja í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða, því að í frumvarpi til fjárlaga og í fjárlögum sem samþykkt voru var gert ráð fyrir að í Framkvæmdasjóð ferðamanna færu aðeins 145,8 millj. kr., rétt tæpar 146 millj. kr.

Herra forseti. Menn mega vera ansi slappir í stærðfræði til að átta sig ekki á því að bregðast verður við og hefði þurft að bregðast við og byrja strax í byrjun þessa árs og þótt fyrr hefði verið því að sami leikur var leikinn við fjáraukann 2014. Þetta var ítrekað í umræðum, við bjuggumst við því í minni hlutanum að það kæmi viðbót á milli 2. og 3. umr. frá hæstv. ríkisstjórn um Framkvæmdasjóð ferðamannastaða til að bregðast við þessum vanda sem augljóslega blasti við, en svo var ekki. Tillögur frá minni hlutanum þar um voru felldar af hv. þingmönnum stjórnarmeirihlutans. Það var því tekin meðvituð ákvörðun um að setja aðeins 145,8 millj. kr. í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða fyrir árið 2015.

Núna er í fjáraukalögunum hið augljósa sett fram, að það þarf aukna fjármuni og lagt til að við samþykkjum 850 millj. kr. til að bregðast við þeim vanda sem uppi er á ferðamannastöðunum. Auðvitað erum við algjörlega sammála því að bregðast þarf við þessu en ég gagnrýni það, herra forseti, að hér er verið að nota fjáraukalögin til þess að setja undir handvömm hæstv. ríkisstjórnar og hæstv. ráðherra ferðamála. Við erum fengin til þess að taka þátt í því og ekki nóg með það heldur er í fjárlagafrumvarpinu, sem búið er að mæla fyrir og er núna í vinnslu í hv. fjárlaganefnd, gert ráð fyrir að í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða á árinu 2016 verði settar aðeins 149 millj. kr., þannig að það á að leika leikinn enn og aftur. Hverjum dettur það í hug að nóg sé að setja 145 millj. kr. í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða og hækka hann um 3,2 millj. kr. frá því ástandi sem nú er verið að bregðast við upp á 850 millj. kr.? Ég vil gagnrýna þetta harðlega, herra forseti.

Hið sama má segja um Vegagerðina. Þar er nákvæmlega sama leið farin. Ég vil vitna í álit 1. minni hluta við 2. umr. fjárlaga fyrir árið 2015. Þar segir um samgöngur, með leyfi forseta:

„Mikið álag er á vegakerfinu vegna fjölgunar ferðamanna og nauðsynlegt vegna umferðaröryggis að sinna viðhaldi vega og til þess þarf auknar fjárveitingar.“

Við settum síðan fram breytingartillögur sem stjórnarmeirihlutinn felldi. Það er algjörlega ljóst og þarf ekki fleiri vitnanna við, öllum var ljóst að verið var að samþykkja fjárlög með upphæðum sem engan veginn gátu brugðist við þeim vanda sem þar var uppi.

Í fjáraukalögunum er gert ráð fyrir framlagi upp á 1,1 milljarð til Sjúkratrygginga vegna samninga við sérgreinalækna. Í fjárlagafrumvarpinu er alveg sama sagan og með vegaframkvæmdir og framlög í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða. Minni hluti þingsins áttaði sig vel á því að það gæti ekki gengið upp að kostnaði vegna samnings við sérgreinalækna yrði velt yfir á sjúklingana, nóg er greiðslubyrði einstaklinga í heilbrigðiskerfinu samt. Við gerðum tillögu um að þetta yrði ekki með þeim hætti sem hæstv. ríkisstjórn lagði upp með og stjórnarmeirihlutinn felldi þá tillögu. En nú kemur hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra með tillögu sem stjórnarmeirihlutinn er búinn að fella. Ég fagna því. Ég fagna þeim sinnaskiptum hjá hæstv. ríkisstjórn en ég gagnrýni lélega áætlunargerð og að fjárlögin standi ekki undir nafni og að koma þurfi með svona lagað inn í fjáraukalögin.

Annað sem ég vil nefna á þeim stutta tíma sem ég hef er barnabætur og vaxtabætur. Nú er í fjáraukalagafrumvarpinu gert ráð fyrir að barnabætur og vaxtabætur lækki, barnabætur um 600 millj. kr. og vaxtabætur um 200 millj. kr. Þarna eru 800 millj. kr. sem hv. þingmenn samþykktu að ættu að fara til að jafna stöðu barnafólks og þeirra sem skulda í íbúðarhúsnæði. En það gengur ekki út vegna þess að báðar þessar upphæðir eru tekjutengdar og viðmiðin eru svo lág. Peningurinn sem þingið samþykkir að eigi að fara til að jafna stöðu barnafólks og þeirra sem greiða háa vexti af húsnæðislánum gengur ekki út, enda er það svo til dæmis með barnabæturnar að þær byrja að skerðast við 200 þús. kr. mánaðarlaun. Ég vil hvetja til þess að þegar við tökum til við að ræða þá liði fyrir fjárlagaárið 2016 látum við ekki segja okkur að um sé að ræða einhverja heildarupphæð og menn séu glaðir yfir einhverri mikilli heildarupphæð þegar stór hluti hennar rennur síðan aftur til ríkissjóðs vegna þess að viðmiðin eru svo lág. Við þurfum að horfa á viðmiðin og fara rækilega í gegnum það hvernig áætlunin er reiknuð út.

Í fjáraukalagafrumvarpinu er líka gert ráð fyrir rúmlega 2 milljarða kr. lækkun vegna veiðigjalda. Það gefur okkur tilefni til, herra forseti, að rifja upp hvernig farið hefur verið með veiðigjöldin frá fjárlögum 2013. Þær upphæðir hafa farið lækkandi með hverju árinu. Ef við tökum þessa 2 milljarða, 2.020 millj. kr. sem lækkunin er í þessum fjáraukalögum, en þau eru vegna breytingar á innheimtu á veiðigjöldunum og leggjast þá á á næsta ári, ef við tökum þau bara frá þá er veiðigjaldið búið að lækka frá fjárlögum 2013 um 6.170 millj. kr. Uppsafnað er þetta 14.590 millj. kr. Hvað hefðum við ekki getað gert fyrir þá peninga, ef við tökum bara 6.170 millj. kr.? Við gætum grafið göng, við gætum lagað vegi, brýnt verkefni sem er fjársvelt þessa dagana. Við hefðum getað lækkað tryggingagjaldið sem mundi nýtast öllum öðrum atvinnugreinum í landinu, svo dæmi sé tekið, og látið jafnvel hluta þessa gjalds renna til sveitarfélaganna. Lækkunin er 46% sem er nú ansi góður díll fyrir útgerðina í landinu sem sjaldan hefur staðið betur og þá er ég aðeins að tala um upphæð á verðlagi hvers árs. Ef við færum í það að reikna verðbólgu inn í hlutina yrði reikningurinn öðruvísi og allur á kostnað ríkissjóðs.

Virðulegur forseti. Við höfum kallað eftir því í fjárlaganefnd að fá inn gesti til að útskýra fyrir okkur hvaða ávinningur það er fyrir okkur skattgreiðendur að ríkissjóður gerist stofnaðili að Innviðafjárfestingabanka Asíu. Þetta framlag er metið, að mér skilst, á 2,3 milljarða kr. þó að það greiðist ekki allt út í einu. Mér finnst mikilvægt að við förum gaumgæfilega yfir það af hverju við þurfum að eiga hlut í einum bankanum í viðbót. Við eigum hlut í Norræna fjárfestingarbankanum sem fjárfestir ekki bara í innviðum á Norðurlöndum heldur hefur hann líka farið með fjárfestingar sínar annað. Sama er að segja um þróunarbanka Evrópu. Af hverju þurfum við að bæta þessu við og hvaða viðbót er þar sem skiptir okkur svona miklu máli að við séum stofnaðili að þessum stóra Asíubanka? Við fáum væntanlega svar við því þegar þar að kemur en það er ekki komið núna.

Að lokum, herra forseti, vil ég gagnrýna áætlunargerð á tekjuhliðinni. Það er eins með hina liðina sem ég hef nefnt hér, og ekki í fyrsta skipti sem það gerist, að arðgreiðslur eru áætlaðar af Bankasýslunni með ákveðnum hætti. Fyrir þeim eru færð rök í fjárlaganefnd að óvarlegt sé að reikna með hærri arðgreiðslum úr fjármálafyrirtækjum og síðan tveimur mánuðum seinna hafa aðalfundir þeirra stofnana samþykkt mun hærri arðgreiðslur, eins og sést á frumvarpinu sem er jákvætt núna á tekjuhliðinni um 17 milljarða kr. og stærsti hlutinn þar er vegna arðgreiðslu úr Landsbankanum. Eigandi Landsbankans áætlar arðgreiðslur upp á örfáa milljarða í lok desember 2015 og innan við tveimur mánuðum eftir það er komin ný arðgreiðsla, samþykkt, sem er algjörlega úr takti við það sem áætlað var.

Herra forseti. Ég á mjög erfitt með að átta mig á þessum leik. Þetta lítur út eins og blekkingaleikur, svona allt í plati. Við eigum ekki nóga peninga til að grafa göng og byggja vegi en síðan kemur í fjáraukalögunum: Heyrðu, nei, nei, þetta er nú ekki alveg svona, við eigum nokkra milljarða. En umræðan um notkun þeirra er þá ekki í takt við það sem ætti að vera í fjárlögum hvers árs.

Nú er tími minn búinn, herra forseti, og ég lýk máli mínu.