145. löggjafarþing — 30. fundur,  10. nóv. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[16:01]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hv. þingmaður hefur talað um samfélagsbanka og borið upp tillögur í stjórnmálaflokki sínum hvað það varðar. Mér finnst það áhugavert en ég er ekki viss um að ég skilji alveg hvað hv. þingmaður á við nákvæmlega þegar hann talar um samfélagsbanka. Nú má vera að það sé flókið mál að útskýra það en ég vil biðja hv. þingmann um að gera tilraun til að fara yfir það með mér hvað það þýðir. Ætti til dæmis slíkur samfélagsbanki að hafa eitthvert félagslegt hlutverk eins og litið hefur verið á að Íbúðalánasjóður hafi, þ.e. að lána t.d. til húsnæðiskaupa úti á landi þar sem ljóst er að söluverð húsnæðisins nær aldrei upp í byggingarkostnaðinn, svo dæmi sé tekið? Bankarnir hafa ekki verið hrifnir af því að lána til húsnæðisbygginga, íbúðabygginga úti á landi einmitt út af þessu því að ef sá sem tekur lánið stendur ekki í skilum stendur veðið ekki undir kostnaði bankans. Er hv. þingmaður að tala um eitthvert slíkt hlutverk eða blandað hlutverk eða á hv. þingmaður við að slíkur banki tæki þátt í menningarstarfsemi í nærumhverfi sínu eða uppbyggingu sprotafyrirtækja eða hvað? Gæti hv. þingmaður farið yfir það með mér í stuttu máli hvað hann á við með samfélagsbanka?