145. löggjafarþing — 30. fundur,  10. nóv. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[16:26]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þegar ég nefndi Groundhog Day var ég að vísu að ræða um Íbúðalánasjóð og samfélagsbankaumræðuna því að mér finnst ég vera að taka nákvæmlega sömu umræðu núna um hugmyndir um samfélagsbanka og við tókum um Íbúðalánasjóð á síðustu kjörtímabilum. Það breytir því ekki að ræða mín fór síðan í að gagnrýna það að þarna væru nokkrir hlutir sem ekki væru ófyrirséðir og hefði átt að áætla fyrir, og ég ætla ekki að bæta neinu við það. Ég fór yfir mjög marga þætti hvað það varðaði því að það skiptir engu máli hvaða ríkisstjórn er við völd, við eigum að vera gagnrýnin á hennar störf. Stóra myndin er mjög góð og margt hefur verið gert mjög gott þannig að við erum án nokkurs vafa á réttri leið. Stutta svarið við seinni spurningunni, hvort ég telji líkur á að þetta batni enn frekar, er: Já.