145. löggjafarþing — 30. fundur,  10. nóv. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[16:28]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svo að menn séu alveg með prinsippin varðandi bæturnar á hreinu: Ástæðan fyrir því að þær eru að lækka er sú að laun eru hærri en gert var ráð fyrir. Við hljótum að gleðjast yfir því. Ef kaupmáttur eykst hjá barnafjölskyldum og öðrum, hljótum við að gleðjast yfir því. Ef laun hefðu hækkað hjá öllum þannig að enginn væri með þau laun sem eru hvað lægst núna — eðli málsins samkvæmt eru alltaf einhverjir með lægstu launin, en markmiðið er að þau hækki — þá mundu bæturnar lækka verulega. Það er kjarni máls. Það skiptir öllu máli.

Ég skil ekki áhersluna á það að reyna að halda bótum bótanna vegna. Vilja menn ekki frekar að kaupmáttur fólks hækki sem allra mest? Er það ekki markmiðið? Það er að minnsta kosti það markmið sem ég vildi sjá. Í þessu fjárlagafrumvarpi er líka farið í ýmislegt sem hjálpar barnafjölskyldum. Það er búið að leggja af vörugjöld (Forseti hringir.) og nú er verið að leggja af tolla og annað slíkt og við eigum að halda áfram á þessari braut.