145. löggjafarþing — 30. fundur,  10. nóv. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[16:30]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil gera athugasemdir við ummæli hv. þingmanns varðandi Íbúðalánasjóð. Í mínum huga á hann ekkert skylt við þá samfélagsbankahugmynd sem hv. þm. Frosti Sigurjónsson og fleiri hafa rætt. Íbúðalánasjóður var og er opinber húsnæðislánasjóður sem hefur skyldur gagnvart öllum landsmönnum án tillits til þess hvar þeir búa.

Kostnaður sem ríkið hefur haft af Íbúðalánasjóði undanfarin ár er að stórum hluta til vegna mistaka í fortíðinni þegar lán sjóðsins voru gerð uppgreiðanleg án álags en fjármögnunin var föst. Þetta var gert í ríkisstjórnartíð Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks og sama má segja um 90% lán, að því marki sem það hefur haft áhrif á Íbúðalánasjóð, þá var það sömuleiðis gert í stjórnarsamstarfi sömu flokka.

Loks finnst mér ósanngjarnt að fjalla um Íbúðalánasjóð þannig að menn taki ekki að einhverju leyti tillit til þess að annað gat varla gerst en að hann fengi eitthvert högg á sig eftir hrunið eins og aðrar fjármálastofnanir.

Mér finnst það dálítið ódýrt að afgreiða ekki bara Íbúðalánasjóð (Forseti hringir.) heldur líka hugmyndina um samfélagsbanka með því að reynslan af Íbúðalánasjóði sé svo slæm.