145. löggjafarþing — 30. fundur,  10. nóv. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[16:37]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka svarið. Það er rétt, við munum kalla eftir frekari upplýsingum. En við erum auðvitað í þeirri stöðu að það er búið að eyða þessum peningum, í flestum tilfellum er búið að eyða þeim án þess að Alþingi hafi samþykkt það, þannig að okkur er stillt upp við vegg. En á hinn bóginn finnst mér að þingið verði að senda skýr skilaboð og það gerir það ekkert öðruvísi en að segja: Heyrðu, nei, við sögðum þetta í fyrra, hittiðfyrra og núna. Ef þið hafið ekki lesið nefndarálitið eða hlustað á ræðurnar okkar er það bara ykkar vandamál. En svona vinnubrögð ganga ekki.

Mér fyndist það í anda fjárlaganefndar þar sem mér finnst við hafa verið að vinna að því að auka aga öll saman og talað fyrir því. Við höfum unnið vel saman varðandi opinberu fjármálin og erum sammála um mikilvægi þeirra. Við eigum að stappa niður fæti og segja: Nei, fyrirgefið, þetta gengur ekki svona. En mér finnst eins og ráðherrarnir séu (Forseti hringir.) hlæjandi að okkur hérna hinum megin við þilið.