145. löggjafarþing — 30. fundur,  10. nóv. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[16:39]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er ekki alveg sammála lokaorðunum, að hæstv. ráðherrar taki þarna bakföll af hlátri. Mér finnst okkur miða í rétta átt, ég held að það sé enginn vafi á því. Mér finnst samt sem áður skilaboðin frá meiri hluta þingmanna ekki alveg vera skýr þegar kemur að aga í ríkisrekstri. Mér finnst það vera svolítið þannig að þegar hv. stjórnarandstæðingar, ég ætla ekki að nefna nein nöfn, ég vona að mér fyrirgefist það — að þegar vinsælt er að tala upp í ákveðnar stofnanir eða ákveðna aðila þá er það gert.

Mér finnst því skorta svolítið á samstöðuna gagnvart þeim markmiðum sem hv. þingmaður nefndi hér. En við munum ekki breyta því nema með mjög breiðri pólitískri samstöðu, eins og við sáum, ég og hv. þingmaður, þegar við fórum til Svíþjóðar og kynntum okkur þessi mál í tengslum við opinber fjármál. Þar er þverpólitísk samstaða um aga í ríkisfjármálum. Hér er það ekki svo. Það er í orði en ekki á borði. Hv. stjórnarandstæðingar þurfa líka að líta aðeins í eigin barm, (Forseti hringir.) því að þetta snýr ekki bara að okkur í meiri hlutanum. Vonandi auðnast (Forseti hringir.) okkur að ná betri árangri.