145. löggjafarþing — 30. fundur,  10. nóv. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[16:45]
Horfa

Karl Garðarsson (F):

Virðulegur forseti. Fjáraukalög og hvernig þau hafa verið notuð hefur oftsinnis sætt gagnrýni. Með setningu laga nr. 88/1997, um fjárreiður ríkisins, og í greinargerð með því frumvarpi markaði Alþingi skýra stefnu um hlutverk og efni fjáraukalaga. Í því felst að gert er ráð fyrir að allar fyrirsjáanlegar fjárráðstafanir komi fram í fjárlögum en að í fjáraukalögum innan fjárlagaársins verði leitað eftir heimildum fyrir þeim fjárráðstöfunum sem ekki var hægt að sjá fyrir við afgreiðslu fjárlaga.

Samkvæmt fjárreiðulögunum er slíkum fjárráðstöfunum í fjáraukalögum fyrst og fremst ætlað að taka til óhjákvæmilegra málefna, einkum til ófyrirséðra atvika, áhrifa nýrra kjarasamninga eða nýrrar löggjafar á árinu, en ekki til áforma um ný verkefni, aukins umfangs starfsemi eða til dæmis rekstrarhalla einstakra ríkisstofnana umfram setta útgjaldaramma, enda er mælt fyrir um það í lögunum að vísa beri slíkum tillögum um breytingar á fjárheimildum til umfjöllunar um fjárlög fyrir næsta fjárlagaár. Því miður hafa menn oft freistast til að fara út fyrir þann ramma sem myndaður hefur verið um fjáraukalög og bætt inn alls kyns viðfangsefnum sem eiga frekar heima í fjárlögum en ekki fjáraukalögum. Það er brýnt að breyta þessu og koma nauðsynlegum aga á alla fjárlagagerð.

Í fjárlögum ársins 2015 var annað árið í röð stefnt að því að skila afgangi á heildarjöfnuði ríkissjóðs eða sem svaraði til 3,5 milljörðum kr. Áætlun um afkomu ríkissjóðs á þessu ári hefur nú verið endurskoðuð með hliðsjón af vinnuspá Hagstofu Íslands um efnahagshorfur í júní síðastliðnum og í ljósi nýrra upplýsinga um þróun tekjustofna og útgjalda helstu málaflokka á fyrri hluta ársins. Að óbreyttu er útlit fyrir að afkoma ríkissjóðs verði talsvert betri en gengið var út frá í gildandi fjárlögum. Frumvarpið gerir þannig ráð fyrir að heildartekjur aukist um 26,4 milljarða kr. frá áætlun fjárlaga og að heildarfjárheimildir vegna útgjalda hækki um 9,4 milljarða kr. Þannig er áætlað að afgangur á heildarjöfnuði verði 20,6 milljarðar kr. á árinu 2015 eða 17,1 milljarði kr. betri á rekstrargrunni en samkvæmt fjárlögum. Stærsti hluti bættrar afkomu frá fjárlögum skýrist af um það bil 15 milljarða kr. hærri arðgreiðslum frá fjármálastofnunum en reiknað hafði verið með í forsendum fjárlaga, einkum frá Landsbanka Íslands.

Sótt er um þrjár heimildir í 4. gr. frumvarps til fjáraukalaga, oft kallaðar 6. gr. heimildir. Heimildirnar skiptast þannig að ein er til kaupa eða leigu á fasteignum og tvær falla undir ýmsar heimildir. Þannig er óskað eftir heimild til að kaupa eða leigja hentugt húsnæði fyrir embætti ríkissaksóknara og héraðssaksóknara. Embætti ríkissaksóknara hefur verið sagt upp húsnæði sínu að Hverfisgötu 6 í Reykjavík og er því brýnt að finna stofnuninni annað hentugt húsnæði á árinu. Embætti héraðssaksóknara hefur verið sett á laggirnar í kjölfar lögbundinna breytinga á skipan mála er varða saksóknaraembætti í landinu. Brýnt er að hefja undirbúning að skoðun húsnæðismála hins nýja embættis og geri ég ekki athugasemdir við það.

Þá er óskað eftir heimild sem tengist stofnframlagi vegna aðildar Íslands að Innviðafjárfestingabanka Asíu, sem var rætt um hér áðan, sem samþykkt var á fundi stofnríkja bankans í Peking hinn 30. júní síðastliðinn. Bankinn er fjárfestingarbanki sem að mörgu leyti er sambærilegur Endurreisnar- og þróunarbanka Evrópu og starfar á viðskiptalegum grunni. Fjármála- og efnahagsráðuneytið annast málefni alþjóðlegra fjármálafyrirtækja af þessu tagi samkvæmt forsetaúrskurði um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands. Gert er ráð fyrir að hlutur Íslands verði 17,6 milljónir bandaríkjadala eða 0,01% af stofnfé sem samsvarar um 2,3 milljörðum kr. Atkvæðavægi Íslands verður 0,2778% sem er ríflega 15-falt miðað við stofnfjárhlut Íslands. Fimmtungur stofnfjárins verður innborgaður en 4/5 hlutar stofnfjárins er innkallanlegt stofnfé. Sá hluti stofnfjárins sem er innborgaður greiðist með fimm jöfnum greiðslum. Sú fyrsta fer fram 30 dögum eftir að bankinn tekur til starfa, næst greiðsluári síðar og það sem eftir stendur verður greitt árlega eftir það. Í fjárlögum fyrir 2016 er því sótt um heimild fyrir greiðslu á 100 millj. kr. og er gert ráð fyrir að sama fjárhæð verði greidd árlega næstu fjögur ár þar á eftir.

Nú má vel vera að þessi asíski fjárfestingarbanki geti reynst okkur vel og þar með íslenskum útflutningsfyrirtækjum. Ég hef í sjálfu sér ekki séð neitt um það. Þá er rétt að benda á að völd okkar eða áhrif innan þessa banka verða engin eða nánast engin, auk þess sem starfsemi hans virðist aðallega miðast við að styrkja innviði ríkja í Asíu.

Þegar við deilum út fjármagni verðum við ætíð að spyrja okkur spurninga. Hvar er fjármunum ríkisins best varið? Kannski er það í þeim banka. Ég hef bara ekki hugmynd um það og ég held að fæstir hér innan dyra hafi hugmynd um það hvort þetta framlag okkar muni skila okkur einhverju.

Í fjáraukanum er óskað eftir heimild sem tengist sölu RÚV ohf. á byggingarréttindum á lóð félagsins. Ávinningur sölunnar í heild fyrir RÚV ohf. er áætlaður um 1,5 milljarðar kr. en hann ræðst af endanlegu staðfestu deiliskipulagi svæðisins. Með heimildinni er lagt til að andvirði hlutar RÚV ohf. vegna samningsins gangi til að lækka skuldir félagsins til hagsbóta fyrir félagið og ríkið sem eiganda þess og ábyrgðaraðila. Það er vissulega brýnt að lækka skuldir Ríkisútvarpsins og endurskipuleggja reksturinn frá grunni. Því miður hefur umræðan gjarnan snúist upp í dægurþras um einstakar deildir félagsins, og er það miður. Það þolir enga bið að taka eiginlega umræðu um framtíð RÚV, umræðu með þátttöku þjóðarinnar. Það skiptir nefnilega máli hvað þjóðin vill í þessu sambandi.

Óskað er eftir 60 millj. kr. viðbótarframlagi vegna uppsafnaðs rekstrarvanda nokkurra tónlistarskóla í Reykjavík. Það mál má rekja til ársins 2009 þegar Reykjavíkurborg boðaði mikinn niðurskurð á fjárveitingum til tónlistarnáms og til að koma til móts við óskir sveitarfélaganna um fjárstuðning til tónlistarfræðslu gerðu ríkið og sveitarfélögin í kjölfarið með sér samkomulag um eflingu tónlistarnáms í maí 2011. Samkvæmt því veitti ríkið 480 millj. kr. á ársgrundvelli sem styrk á móti kennslukostnaði í hljóðfæranámi á framhaldsstigi og söngnáms á mið- og framhaldsstigi. Á móti skuldbundu sveitarfélögin sig til að taka yfir ný verkefni frá ríkinu að jafnvirði 230 millj. kr. á ári.

Þær 480 milljónir frá ríkinu á ársgrundvelli dugðu ekki til, meðal annars vegna þess að fleiri nemendur voru teknir inn í tónlistarnámið. Fljótlega eftir að samkomulagið var gert kom í ljós að kennslukostnaður nokkurra tónlistarskóla var orðinn hærri en gert hafði verið ráð fyrir og var þá brugðist við með því að bæta 40 milljónum við í fjáraukalögum árið 2013. Aukinn kostnaður stafaði meðal annars af því að fleiri nemendur höfðu verið teknir inn í tónlistarskólana, lengri starfstíma og meiri launahækkunum en gert hafði verið ráð fyrir. Féllst ríkið á að veita framlög í þetta og hefur ríkið sem sagt bætt við aukaframlagi árlega síðan þá í fjárauka þannig að framlag til þessara skóla nemur nú um 520 millj. kr. á ári. Samkomulagið um eflingu tónlistarnáms var upphaflega gert til tveggja ára en hefur verið framlengt tvisvar sinnum með viðauka og rann síðasti viðauki út í árslok 2014. Nýtt samkomulag hefur ekki verið gert og verður að telja að fjármögnun tónlistarnáms sé alfarið á ábyrgð sveitarfélaga.

Eins og kom fram í ræðu hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar er lagt til að veitt verði 45 millj. kr. framlag til að greiða fyrir þjónustu norska fjarskiptafyrirtækisins Telenor út árið 2015 og að hluta fyrir árið 2014 vegna stafrænna hljóðvarps- og sjónvarpsútsendinga Ríkisútvarpsins um gervihnött. Notendur þeirrar þjónustu eru sjófarendur á miðunum við Ísland, heimili í dreifbýli utan hefðbundins dreifikerfis RÚV og Íslendingar búsettir á Norðurlöndunum. Nú hafa þeir samningar við Telenor endað í fjárauka síðustu ár. Gera átti breytingar núna með þjónustugjöldum en enn og aftur er þetta komið inn í fjáraukalög og æskilegt væri að fá það á hreint hvernig þessari þjónustu verður háttað í framtíðinni.

Lagt er til að fjárheimild utanríkisráðuneytisins verði aukin um 247 millj. kr. og munar þar mestu um framlag vegna þróunarmála og alþjóðlegrar hjálparstarfsemi. Um er að ræða framlag til fjárstuðnings við alþjóðastofnanir og hjálparsamtök sem vinna með flóttafólki erlendis, svo sem Flóttamannastofnun, Barnahjálp, Neyðarsjóð og Matvælaaðstoð Sameinuðu þjóðanna. Fé verður meðal annars varið til kaupa á mat, lyfjum og hjálpartækjum og til stuðnings við verkefnið „heilsugæsla á hjólum“ sem Rauði kross Íslands hefur staðið að. Það eru jákvæð skref og ástæða er til að hrósa ríkisstjórninni fyrir hversu vel hún hefur tekið á þessum málaflokki.

Lagt er til að veitt verði 850 millj. kr. viðbótarframlag til brýnnar uppbyggingar og verndaraðgerða á ferðamannastöðum sem eru í eigu eða umsjón ríkisins. Framkvæmdir á þeim stöðum snúa fyrst og fremst að gerð göngustíga, útsýnispalla, bílastæða og salernisaðstöðu. Með auknum ferðamannafjölda hefur þörfin fyrir uppbyggingu og viðhaldi innviða á ferðamannastöðum orðið aðkallandi enda margir staðir sem liggja undir skemmdum. Í ljósi þess að vinnu við fyrirkomulag á fjármögnun framkvæmda á ferðamannastöðum hefur seinkað þarf að bregðast við þessari þörf á yfirstandandi ári með almennum framlögum úr ríkissjóði. En það gengur ekki lengur svona, eins og við erum að gera þetta. Hvað eigum við að bíða lengi eftir að framtíðarskipan þessara mála liggi fyrir? Það er orðið til skammar fyrir okkur, þingmenn og Alþingi Íslendinga í heild sinni, að ekki sé hægt að ná samkomulagi um fjármögnun ferðamannastaða. Fjöldi ferðamanna er að margfaldast og við gerum nákvæmlega ekki neitt. Það er engin framtíðarsýn, bara skammtímareddingar.

Ég ætla aðeins að minnast á málskostnað í opinberum málum. Samtals er lögð til 705 millj. kr. hækkun á þeim lið. Annars vegar er lögð til 407 millj. kr. hækkun á framlagi í samræmi við útkomu ársins og hins vegar tæplega 300 millj. kr. hækkun vegna ákvörðunar dómstólaráðs um verulega hækkun á málsvarnarlaunum. Málskostnaður í opinberum málum er allur kostnaður sem lögreglustjórar, héraðsdómstólar og ríkissaksóknari greiða öðrum en starfsmönnum viðkomandi embættis vegna rannsókna og rekstrar opinberra mála. Sakarkostnaður er sá hluti málskostnaðar sem annars vegar sakborningi er gert að greiða samkvæmt sektargerð lögreglustjóra og hins vegar sem dómþola er gert að greiða samkvæmt dómi eða viðurlagaákvörðun dómara. Útgjöld þessa liðar voru verulega umfram fjárheimildir fjárlaga á árunum 2012 til 2014. Lögfræðikostnaður er stærsti einstaki kostnaðarliðurinn og vegur um 50% af heildarkostnaðinum en lögfræðikostnaður hefur hækkað verulega á síðustu árum meðal annars vegna mála tengdum fjármálahruninu. Á milli áranna 2011 og 2014 hefur þessi kostnaðarliður hækkað um 126% eða úr 260 millj. kr. í 590 millj. kr.

Loks vil ég minnast aðeins á Vegagerðina og Sjúkratryggingar. Tillaga er gerð um 1.139 millj. kr. viðbótarframlag til að standa straum af uppsöfnuðum halla þjónustuliðar Vegagerðarinnar. Verulegur halli hefur verið á þessum lið undanfarin ár sem skýrist fyrst og fremst af hallarekstri vetrarþjónustu, en hallinn var um 1.139 millj. kr. í ársbyrjun 2015. Á síðustu árum hefur þurft að verja umtalsverðum fjármunum til að koma til móts við kostnað við vetrarþjónustu Vegagerðarinnar umfram fjárheimildir. Í fjáraukalögum ársins 2013 var 700 millj. kr. fjárheimild veitt í þennan lið, auk þess sem fluttar voru 500 millj. kr. af framkvæmdalið eða samtals 1.200 millj. kr. Engu að síður var niðurstaðan sú að í árslok stóðu eftir 900 millj. kr. umfram gjöld. Þá má nefna að í fjáraukalögum 2012 var veitt 420 millj. kr. framlag vegna halla á vetrarþjónustunni það ár. Í fjáraukalögum 2014 voru síðan samtals 1.150 millj. kr. viðbótarframlög veitt vegna vetrarþjónustunnar. Í frumvarpi til fjárlaga 2016 er jafnframt gert ráð fyrir 800 millj. kr. hækkun á framlagi vegna þeirrar þjónustu. Verið er að endurskoða fyrirkomulag snjómoksturs og umfang þjónustustigsins þannig að sú 800 millj. kr. viðbótarfjárveiting sem þar um ræðir nægi til að halda þjónustulið Vegagerðarinnar innan fjárlaga. Nú er það svo að erfitt getur verið að leggja mat á nauðsynleg framlög til snjómoksturs og annars slíks en sífelld framúrkeyrsla kallar á að þessi mál verði endurskoðuð og að fjárlögin sjálf verði nær raunveruleikanum. Reynsla undanfarinna ára kennir okkur að við höfum vanáætlað nauðsynleg framlög í þann málaflokk.

Loks vil ég nefna að fjárheimild Sjúkratrygginga hækkar alls um 2.137 millj. kr. og skýrist það af tvennu. Annars vegar er gert ráð fyrir að útgjöld liðarins verði 1.172 millj. kr. umfram fjárheimildir vegna samnings við sérfræðilækna og hins vegar er gert ráð fyrir að útgjöld liðarins aukist um 965 millj. kr. vegna endurmats (Forseti hringir.) á áætluðum útgjöldum liðarins á árinu 2015. Útgjöld til Sjúkratrygginga hafa farið fram úr fjárlögum eins lengi og ég man eftir mér. Hér er aðeins tvennt til ráða, (Forseti hringir.) að endurskoða hlutverk Sjúkratrygginga eða að fara að áætla rétt við fjárlagagerð. Fjáraukinn má aldrei verða eins konar ruslakista til að redda því sem menn veigra sér við að taka inn í fjárlög.