145. löggjafarþing — 30. fundur,  10. nóv. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[17:25]
Horfa

Hörður Ríkharðsson (Sf):

Frú forseti. Hér hafa þingmenn farið um víðan völl og drepið á mörg atriði og það hefur verið mjög fróðlegt og lærdómsríkt að fylgjast með umræðunni. Mig langar að gera að umtalsefni og leggja út af orðum hæstv. fjármálaráðherra frá því þegar hann mælti fyrir fjáraukalögum en þá sagði ráðherrann meðal annars, með leyfi forseta:

„Þar vísa ég til þess að í vetrarþjónustu, eins og annars staðar í stofnanakerfinu, er ekki hægt að útiloka að menn þurfi að aðlaga þjónustustigið að þeim veruleika sem mönnum er búinn við fjárlagagerðina. Það er hinn kaldi veruleiki svo margra stofnana í ríkiskerfinu og hlýtur að eiga við í Vegagerðinni.“ — Þarna fjallar fjármálaráðherra um framúrakstur í vetrarþjónustunni og um Vegagerðina.

Hingað hafa komið þingmenn og nefnt að þetta sé búið að vera allt of lengi svo að ekki takist að áætla fyrir vetrarþjónustu, búa til sveiflujöfnunarsjóði eða grípa til annarra ráðstafanna sem nauðsynlegar eru til þess að þessi mjög svo mikilvægi málaflokkur sé í eðlilegum farvegi.

Ég held að af því tilefni sé ástæða til að drepa á nokkur atriði sem varða þetta mál efnislega. Um hvað snýst þessi vetrarþjónusta? Hefur eðli hennar eitthvað breyst? Erum við og stofnanir ríkisins kannski ekki alveg með á nótunum um það hversu mikilvæg sú þjónusta er orðin? Það er nefnilega margt sem hefur breyst og kallar á aukna umferð að vetrarlagi. Eitt er fiskflutningar. Útflutningur á ferskum fiski hefur stóreflst og þar eru það klukkustundir og dagar sem skipta öllu máli með afhendingu og þá verða menn að komast á leiðarenda.

Margs konar hagræðing og samdráttur hefur leitt til þess að við íbúar á landsbyggðinni sækjum nú vinnu, menntun, heilbrigðisþjónustu og alls konar hluti á milli byggðarlaga, sem við gerðum ekki fyrir fáeinum árum síðan. Þegar maður er búinn að taka sér frí í vinnu, stofna til fundar við einhvern þjónustuaðila, lækni, tannlækni eða annað, verður það að standa og þá gengur ekki að vegirnir séu lokaðir. Skólaakstur með grunnskólanema. Í tíu ár eyða nemendur ótrúlega stórum hluta dagsins í bíl. Það er lágmark að vegirnir séu öruggir og greiðir yfirferðar svo að það geti átt sér stað, bæði kvölds og morgna og í og úr skóla. Stóraukinn ferðamannastraumur innlendra og erlendra ferðamanna, talað er um að það sé orðið stærsta gjaldeyrissköpunin. Þetta er stærsti atvinnuvegurinn. Þetta er það sem á að bjarga landsbyggðinni. Þetta er nýja byggðastefnan. Það er ferðaþjónustan. Hvernig á hún að geta spjarað sig ef vegirnir eru ekki færir? Menn verða að horfa á þetta.

Þegar allir vegir voru holóttir og hálfófærir malarvegir þurfti annars konar þjónustu við þá en við þurfum við vegina sem eru með bundnu slitlagi. Það fór enginn þá hálfófæru, holóttu vegi nema af illri nauðsyn. En þegar vegirnir eru orðnir greiðfærari, eins og þeir eru með bundnu slitlagi, þá stóreykst umferðin. Þess vegna eykst vetrarþjónustuþörfin þegar vegir eru lagðir bundnu slitlagi og það er veruleiki sem verður að horfa á. Auk þess eykst hraðinn og þá verður hálkueyðing miklu brýnni en á gömlu vegunum.

Nú við höfum við lengt vegakerfið og það þarf að þjónusta nýju vegina án þess að gömlu vegirnir leggist af. Dæmi um það er Þverárfjallsvegur sem er að minnsta kosti 40 km. Þar bætist þá við 80 km akstur fram og til baka því að ekki var Vatnsskarðinu lokað þótt þessi hliðstæði vegur væri opnaður. Þá eykst vetrarþjónustuþörfin. Siglufjarðargöng. Við lokuðum ekki veginum hinum megin til Siglufjarðar. Þannig eykst vetrarþjónustuþörfin.

Starfsmenn Vegagerðarinnar og þeir sem vinna í vetrarþjónustunni, verktakarnir hjá Vegagerðinni, eru undir gífurlegum þrýstingi frá almenningi og fyrirtækjum um að halda vegunum opnum. Um leið og einn fer út af eða eitthvað fer úrskeiðis, og er ég þá ekki að tala um að það sé beinlínis ófært heldur hálka sem kemur í veg fyrir að menn geti keyrt á því sem þeir kalla eðlilegum hraða eða á milli staða, þá byrjar síminn og það er alveg gríðarlegur þrýstingur og oft óþolinmæði og dónaskapur sem þessir aðilar verða fyrir í kröfum fyrirtækja og almennings um að vegir séu ýmist opnaðir eða gerðir greiðfærir. Þessir aðilar þurfa á stuðningi og fjármunum að halda til að sinna starfi sínu. Nútímasamfélag krefst þess að vegirnir séu opnir og við eigum ekki að vera að leggja vegi bundnu slitlagi og bæta úr samgöngum ef hugmyndin er ekki að þeir séu opnir og mönnum greiðir þegar á þarf að halda.

Hér hefur verið rætt um samfélagsbanka og Asíubanka og nefndir voru sparisjóðir og menn að veltu því fyrir sér hvort sparisjóðirnir hafi haft samfélagslegt hlutverk. Hafi þeir haft það er spurning: Fóru þeir út af því spori? Er það eitthvað til þess að læra af ef menn ætla að taka umræðu um samfélagsbanka, koma á laggirnar samfélagsbanka, gera samfélagsbanka kleift að reka sig á þeim forsendum sem hér voru raktar, sem hv. þm. Frosti Sigurjónsson kallaði í raunhagkerfinu? Voru sparisjóðirnir okkar þar? Fóru þeir út af því spori? Fóru þeir að taka þátt í svokölluðu fjármálabixi, eins og það var kallað áðan? Fóru þeir út af sporinu þegar uppgötvaðist að á vettvangi þeirra var fé án hirðis? Ég velti þessu upp af því að fólk hefur velt fyrir sér samfélagsbankaumræðunni. Hafi þeir verið samfélagsbankar í einhverri mynd, sem ég ætla ekkert að fullyrða um, þarf að læra af því hvort og hvar og hvernig þeir fóru út af því spori og hófu þátttöku í starfsemi sem er meira á sviði fjárfestinga eða áhættusækinna fjármálafyrirtækja, sem er væntanlega hugmyndin að þeir séu ekki.

Á umliðnum átta vikum sem ég hef tekið þátt í störfum þingsins og í starfi nefnda hefur maður ýmist farið í heimsóknir eða fengið heimsóknir á vettvang nefndanna frá aðilum víða að úr ríkiskerfinu þar sem virkilega vantar fé. Maður hittir eða er heimsóttur af starfsmönnum ríkisstofnana og starfsemi af öllu tagi þar sem slæmt ástand ríkir vegna þess að fólk telur sig ekki geta uppfyllt lagaskyldur um það hvernig eigi að reka þessa starfsemi. Ég ætla að nefna þrjú dæmi vegna þess að ég hef kynnt mér þau og við höfum fengið áhrifaríkar heimsóknir frá aðilum í því og maður hefur skoðað það betur. Þetta á örugglega við í fleiri tilfellum.

Fangelsin. Menn sem hafa starfað þar í áratugi segja að ástandið hafi aldrei verið eins og núna. Fangelsin geti ekki haldið uppi lágmarksöryggi og uppfyllt lagaskyldur sínar. Ég mundi hreinlega vilja sjá meira fé þangað í fjáraukanum.

Sjúkratryggingar vegna hjálpartækja. Til dæmis mega foreldrar, aðstandendur langveikra fatlaðra barna bíða svo vikum og mánuðum skiptir eftir hjálpartækjum sem óumdeilt er að þau eigi lagalegan og reglulega skýran rétt á. Starfsfólkið á þeim vettvangi er miður sín að geta ekki sinnt sjálfsögðum réttindum þessara aðila. Þarna verður að bæta í.

Og lögreglan. Lögreglan hefur ekki eftir hrun fengið það fjármagn sem hún þarf til þess að ná fyrri stöðu. Lögreglan hefur ekki heldur fengið viðurkenningu á öllum þeim nýju verkefnum sem bæst hafa við á vettvangi hennar og eru afleiðing samfélagsbreytinga, alþjóðasamninga og þjóðfélagsþróunar sem ekki var fyrirséð.

Ég vil nefna þessi þrjú dæmi þannig að þegar stjórnarliðar fagna því að hafa lækkað skatta, af því að það er það sem þeir vildu gera, afnema tolla, vörugjöld, lækka skatta, þá finnst mér þeir ekki axla þá ábyrgð sem fylgir rekstri samfélagsins. Íslenskt samfélag er bæði gott og dýrt. Það er það bara. Þá verður að afla tekna til þess og menn verða að sýna þá ábyrgð að geta rekið þá málaflokka og þá starfsemi sem þeir hafa stofnað til með lögum og stofnunum.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri að sinni, frú forseti.