145. löggjafarþing — 30. fundur,  10. nóv. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[17:38]
Horfa

Hörður Ríkharðsson (Sf) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Hann dró fram og skerpti enn frekar allt það sem ég vildi leggja áherslu á í máli mínu.

Ef Vegagerðin er með einhverja heildarfjárveitingu og nær ekki tökum á áætlunargerð sinni gæti hluti af skýringunni verið sá að Vegagerðin er undir gríðarlegu álagi um að gera alls konar hluti. Það er ofboðslegur þrýstingur á Vegagerðina alls staðar. Það er alveg sama á hvaða framkvæmd hún byrjar, þá eru heimamenn og verktakar mættir, sem vilja gera þetta svona og hinsegin og fara lengra og gera meira. Þegar koma tvö, þrjú góð ár í röð freistast menn kannski til að taka sveiflusjóðinn úr vetrarþjónustunni og fara með hann yfir í slíkar framkvæmdir, allar bráðnauðsynlegar. Þeir eru stanslaust skammaðir fyrir að hefla ekki að sumrinu, að ekki sé almennilega fært um malarvegina en þeir reyna að gera vel. Tvö, þrjú góð ár og þeir freistast til að taka þetta fé og fá síðan tvo, þrjá erfiða vetur ofan í kaupið. Við verðum þá með einhverjum hætti að hjálpa þeim og taka meiri pólitíska ábyrgð og segja úti um allt land og alls staðar að við ætlum ekki að gera meira í samgöngum en við erum að gera og taka einhvern veginn af þeim álagið og bakka þá upp í að hafa þennan sjóð ef við ætlum ekki að setja meiri fjármuni í málaflokkinn.

Mér þykir forvitnilegt að heyra það sem hv. þingmaður hafði fram að færa um sparisjóðina og stöðu þeirra í hefðbundnum rekstri fyrir hrun og að hugsanlega hafi þeir freistast í svokallað fjármálabix til að reyna að rétta af hefðbundnu starfsemina. Það er fróðlegt að heyra það.