145. löggjafarþing — 30. fundur,  10. nóv. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[17:40]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við hv. þingmaður höldum áfram að vera sammála um alla vega þessa þætti. Það er án nokkurs vafa mikið álag á Vegagerðinni og miklar kröfur gerðar. En þannig er það á mjög mörgum sviðum og þá reynir á okkur og þá aðila sem fara með þessi mál að setja einhverjar reglur sem standast. Stundum þarf örugglega að segja nei í einhverjum tilfellum. Eða þá hitt að við setjum meiri fjármuni í málaflokkinn. Hins vegar verður það örugglega aldrei nóg. Ég held að við komumst aldrei á þann stað að það verði nóg. Ekki frekar en í heilbrigðismálunum. Það verður aldrei nóg þar. Aldrei í löggæslumálunum og ekki í menntamálum heldur. Það á við um flesta málaflokka.

Við erum að reyna að koma okkur á betri stað, og þá erum við að bera okkur saman við þau lönd þar sem gengur best. Áætlunargerðin er betri þar. Þetta er tvenns konar, annars vegar eftirfylgnin og síðan áætlunargerðin. Þó svo okkur miði í rétta átt erum við augljóslega ekki komin á réttan stað úr því að við erum með gamla drauga, eins og þá sem við vorum að vísa í í fjáraukalögunum. Menn þurfa auðvitað að horfast í augu við raunveruleikann og hv. þingmaður nefndi nokkur dæmi um samgöngubætur, sem eru ekki bara samgöngubætur. Það hlýtur að kalla líka á snjómokstur þegar svo ber undir. Ef þú opnar nýja leið til Siglufjarðar þá þýðir það að þú þarft að vera með meiri snjómokstur en þú varst með áður, svo eitt dæmi sé tekið.

Fiskflutningarnir eru annað gott dæmi. Ég held að stóra málið hljóti að vera það, og við verðum að taka mið af því í áætlunum okkar, að ef við ætlum að byggja upp ferðaþjónustu um allt land, sem ég tel að sé algjör grundvallarforsenda, þá þurfum við að taka mið af því. Svo þurfum við líka að spyrja hvernig við ætlum að ná í fjármuni til að fjármagna það allt saman. Ég næ ekki að fara yfir það á þeim síðustu sex sekúndum sem ég hef hér, virðulegi forseti.