145. löggjafarþing — 30. fundur,  10. nóv. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[18:00]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það skilur kannski einnig á milli okkar í þessu að ég var að horfa yfir sögu sparisjóðanna áratugi aftur í tímann. Það er alveg rétt hjá hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni að afkoma flestra þeirra var ekki beysin á grunnrekstri síðustu árin fyrir hrun. Þeir áttu erfitt uppdráttar í samkeppni við stóru útblásnu bankana sem gátu í raun og veru látið afkomuna af innlendum hlutum starfsemi sinnar mæta afgangi. Og þeir byggðu því miður of mikið á uppgangi bréfa og eigna tengdum sparisjóðunum og það fór illa, það er rétt. En litið lengra til baka voru reknir í landinu sparisjóðir um áratugaskeið með alveg viðunandi afkomu, sem veittu góða þjónustu og voru mikilvægar stofnanir í sínu samfélagi og sínum byggðum. Það þekki ég mjög vel af eigin raun og get farið yfir það við tækifæri með hv. þingmanni ef svo vill til.

Það sem ég sagði um fjárfestingaráætlun fyrri ríkisstjórnar var einfaldlega að nú liggur það fyrir og eru staðreyndir í frumvörpum og greinargerðum frá stjórnarflokkunum sjálfum að allt sem þeir sögðu um það að fjárfestingaráætlun fyrri ríkisstjórnar væri ófjármögnuð reyndist bull. Hún hefur reynst fullfjármögnuð og rúmlega það þau þrjú ár sem hún var sett upp fyrir í byrjun. Það var orðað þannig að þetta væru arðgreiðslur frá fjármálastofnunum og/eða mögulegur söluhagnaður af einhverjum eignarhlutum. Á þeim tíma horfðu menn aðallega til þess að upp gætu komið þær aðstæður að eignarhlutir ríkisins í Arion banka eða Íslandsbanka mundu sjálfkrafa seljast vegna þess að meirihlutaeigendur bankanna mundu selja þá og ríkið fengi þann hlut. Það er að vísu rétt að það var líka tekin inn í lögin heimild til þess að selja allt að 30% í Landsbankanum, en fyrri ríkisstjórn hafði enga ákvörðun tekið um að nýta þá heimild. Það var reyndar, svo að það sé upplýst, ekkert endilega óumdeilt í okkar röðum hvort yfir höfuð ætti að hrófla við eignarhlutnum í Landsbankanum.

Varðandi fjárfestingabanka Asíu er ég ekki að segja að ég sé einhver sérstakur áhugamaður um það að við séum í honum, en ég er heldur ekki (Forseti hringir.) sannfærður um að við eigum ekki að vera það. Ég sagði bara hér að andúð Bandaríkjamanna (Forseti hringir.) á þeim banka er ekki rök fyrir mér til þess að vera ekki með í honum.