145. löggjafarþing — 30. fundur,  10. nóv. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[18:05]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það þarf að sjálfsögðu ekki að þakka mér fyrir að gangast við staðreyndum sem eru meðal annars þær að það voru sett hér lög um það hvernig, ef til kæmi, skyldi staðið að sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálastofnunum, hvort sem það væri þá í sparisjóðum, minnihlutahluturinn í Arion banka eða Íslandsbanka eða eitthvað af eignarhlutnum í Landsbankanum. Fyrri ríkisstjórn tók hins vegar aldrei inn í forsendur fjárlagafrumvarpa sinna neinn áætlaðan söluhagnað af hlutabréfum og fyrst og fremst var horft til arðgreiðslnanna, enda lá fyrir að þær mundu stóraukast á næstu árum þegar fjárfestingaráætlunin var sett upp.

Síðan hefur umræðan þróast. Nú er í gangi sú athyglisverða umræða sem ég blandaði mér aðeins inn í um einhvers konar samfélagsbanka, sem við fögnum að sjálfsögðu að samstarfsflokkur hv. þingmanns í ríkisstjórn, Framsóknarflokkurinn, a.m.k. hluti hans, skuli vera áhugasamur um að ræða og þróa þær hugmyndir. Við erum meira en til í það.

Hv. þingmaður verður að víkka sjóndeildarhringinn. Það er ekki skynsamlegt að segja að það þýði ekkert að horfa til vel heppnaðrar sögu sparisjóðanna lengra aftur í tímann. Hver segir að slíkar stofnanir geti ekki aftur átt grundvöll og tilverurétt, sem skilgreina sig á réttan hátt og eru ekkert að reyna að vera annað en þær voru? Sparisjóðirnir sem stóðu af sér hrunið voru þeir sem voru bara sparisjóðir og fóru ekki í rugl. Sparisjóður eins og Sparisjóður Þingeyinga, Sparisjóður Strandamanna á Hólmavík og Höfðhverfingar. Aðrir fóru því miður flatt á því að elta hina út í vitleysuna og hrundu. Í löndunum í kringum okkur eru öflugir sparisjóðir. (GÞÞ: Það eru risastórir …) Í Noregi, öflugir sparisjóðir. (GÞÞ: Þýskaland …) Í Þýskalandi, að sjálfsögðu. (GÞÞ: Þetta eru risa …) Við getum líka tekið (GÞÞ: Miklu stærri …) grænu bankana, almenningsbanka sem eru byggðir á öðrum grunni og ganga vel. Smálánabankar, sérstaklega reknir í því skyni að aðstoða einyrkja og minni aðila í atvinnurekstri og hlúa að þróun, (Forseti hringir.) frumkvöðlastarfi og nýsköpun. Öll sú flóra er til í löndunum í kringum okkur. Af hverju eigum við ekki að láta það eftir okkur uppi á Íslandi (Forseti hringir.) að velta því fyrir okkur að við gætum haft eitthvað annað en nýjar útgáfur af gömlu bönkunum sem fóru á hausinn?