145. löggjafarþing — 30. fundur,  10. nóv. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[18:24]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er ljúft og skylt að svara þessari spurningu. Já, ég held að við værum betur stödd ef við ættum enn Landssímann og ef aldrei hefði verið braskað með hlutina í Landssímanum. Ég minnist þess á fyrsta eða öðru ári eftir að Landssíminn var seldur — ég held hann hafi þá tapað hálfum milljarði í áhættufjárfestingum í Bandaríkjunum. Á kostnað hverra? Á kostnað þeirra sem njóta þjónustu þessarar stofnunar. Við erum síðan að sjá brask í tengslum við Landssímann, nú síðustu daga. Já, ég hika ekki við að segja að ég tel að við hefðum verið betur sett með því að búa að Landssímanum sem þjóðin átti. Það var reyndar ágætt fyrirkomulag, samkrull Landssímans og Póstsins, sem gagnaðist landsmönnum vel. Gleymum því ekki að Landssíminn skilaði okkur ódýrasta kerfi í heimi og hann skilaði okkur líka umtalsverðum tekjum í ríkissjóð á hverju einasta ári. Þetta er skrýtið. Þetta gengur ekki upp við kredduhugsun hv. þingmanns.

Varðandi það að ég hafi misskilið hann í einu og öllu. Ég er tilbúinn að (GÞÞ: Hlustaðir þú á ræðuna?) — ég hlustaði á ræðuna, (GÞÞ: Nei.) ég hlustaði á hv. þingmann og ég hlustaði á andsvör hans við hv. þm. Frosta Sigurjónsson. Ég heyrði hann tala um að sporin hræddu, þegar umræðan stóð um það hvort Landsbankinn ætti að verða samfélagsbanki. Ég heyrði hann líka tala um það, sem hann reyndar hefur ítrekað núna, að það væri álitamál hvort samfélagsbanki stæðist samkeppnislög. Ég botnaði þá setningu með því að spyrja hvort hann teldi virkilega að banki sem væri hugsaður til að þjónusta (Forseti hringir.) viðskiptavini sína, að áherslan lægi þar, fremur en eigendur stæðist samkeppnislög á Íslandi. Ég hlusta á þingmanninn (GÞÞ: Nei.) og tek orð hans trúanleg.