145. löggjafarþing — 30. fundur,  10. nóv. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[18:29]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég neita því ekki að það gladdi hjarta mitt að hv. þingmaður skyldi afneita sjálfum sér í þessu afsvari og í þeim málflutningi sem hann viðhafði hér í dag, en við erum öll vitni að því sem hér var sagt og að sjálfsögðu má líka finna það í þingtíðindum. Það var verið að ræða um eignarform á bönkum, fyrirkomulag á fjármálastofnunum. Þar sagði hv. þingmaður að sporin hræddu. Ég fór þá í eignarform, samfélagslegt eignarform, á fjármálafyrirtækjum. Ég ræddi um Íbúðalánasjóð og ég ræddi um ríkisbankana á sínum tíma. Í því ljósi skoðaði ég þessi ummæli um að sporin hræddu. (Gripið fram í.) Þetta er nú bara þannig og öllum þeim sem hafa fylgst með þessari umræðu er það morgunljóst og alveg skýrt. (GÞÞ: Alveg skýrt.)

Nú erum við að ræða um það hvort heimila eigi ríkinu að selja 30% hlut í Landsbankanum og það er grafalvarleg umræða. Hv. þingmaður vísar hér í mig og hv. þm. Steingrím J. Sigfússon og við erum með langa reynslu í þessari umræðu. Þegar bankarnir (Gripið fram í.) voru gerðir að hlutafélögum og þegar Síminn var gerður að hlutafélagi þá vorum við alltaf að misskilja allt, það var bara verið að breyta formi. Það stóð aldrei til að selja. (Gripið fram í.) Það átti ekkert að selja, það átti ekkert að gera það. En auðvitað var það allt gert. Auðvitað voru markmiðin alveg skýr. (VigH: Sjóvá …) Þau voru alveg skýr. (GÞÞ: Þú varst í ríkisstjórn sem vildi selja bankana.)(Gripið fram í.) Ég er að tala fyrir því að við rekum og eigum (Forseti hringir.) Landsbankann saman og ég er að taka undir (Gripið fram í.) með formanni (Gripið fram í.) efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis um að Alþingi endurskoði afstöðu sína, og þá sérstaklega ríkisstjórnin og stjórnarmeirihlutinn, og hverfi frá áformum sínum og að við rekum hér saman samfélagsbanka, Landsbankann.