145. löggjafarþing — 30. fundur,  10. nóv. 2015.

tekjustofnar sveitarfélaga.

263. mál
[18:58]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga. Um er að ræða tillögu um bráðabirgðaákvæði við lögin um sérstakt framlag úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Frumvarpið er unnið í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga og er efni þess í samræmi við samþykkt stjórnar sambandsins frá 27. júní 2014.

Samkvæmt lögum um tekjustofna sveitarfélaga er hluti tekna Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga framlag úr ríkissjóði sem nemur 2,12% af innheimtum skatttekjum ríkissjóðs. Auknar tekjur ríkissjóðs vegna álagningar sérstaks skatts á fjármálafyrirtæki samkvæmt lögum nr. 155/2010 skila því auknum tekjum í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga sem nemur þessu hlutfalli af tekjum vegna skattsins. Áætlað er að á fyrri hluta framangreinds tímabils, frá miðju ári 2014 og út árið 1015, nemi þær tæpum 1,1 milljarði króna en nokkur óvissa er hins vegar um hve mikil tekjuaukningin verður á næstu tveimur árum.

Að óbreyttu verður þessum auknu tekjum jöfnunarsjóðs ráðstafað til sveitarfélaganna eftir almennum reglum tekjustofnalaganna um úthlutanir úr sjóðnum. Frumvarpið felur hins vegar í sér að frá miðju ári 2014 og út árið 2017 verður þessum tekjum skipt milli sveitarfélaganna í réttu hlutfalli við hlutdeild þeirra í álögðu heildarútsvari á landsvísu. Er tilgangur þess að koma til móts við tímabundin tekjulækkandi áhrif laga um séreignarsparnað og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar, nr. 40/2014, en eins og fram kemur í greinargerð með frumvarpi þeirra laga leiða þau til tímabundinnar lækkunar á útsvarstekjum sveitarfélaganna vegna meiri sparnaðar í formi séreignar og skattfrelsisiðgjalda.

Það þarf að taka það fram sérstaklega að frumvarpið hefur ekki áhrif á heildarframlög jöfnunarsjóðs til sveitarfélaganna heldur eingöngu skiptingu þessara tekjuauka sjóðsins milli sveitarfélaganna.

Hæstv. forseti. Sambærilegt ákvæði var í frumvarpi innanríkisráðherra um breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaganna haustið 2014 en var þá fellt á brott að tillögu umhverfis- og samgöngunefndar þingsins. Taldi nefndin að ákvæðið þarfnaðist nánari skoðunar í ljósi athugasemda sem henni hefðu borist og þess skamma fyrirvara sem hún hafði til meðferðar málsins.

Í kjölfar þess var ákvæðið yfirfarið af hálfu ráðuneytisins í samstarfi við Samband íslenskra sveitarfélaga. Niðurstaða þeirrar yfirferðar var sú að ekkert væri komið fram sem kallaði á breytingar á ákvæðinu, en þó til að tryggja enn betur sanngjarna skiptingu þessa sérstaka framlags milli sveitarfélaganna var ákveðið að við skiptingu þess skyldi horft til hlutdeildar sveitarfélaga í álögðu heildarútsvari í stað hlutdeildar þeirra í heildarútsvarsstofni. Ákvarðanir einstakra sveitarfélaga um álagningarhlutfall útsvars skipti þannig máli við ákvörðun hlutdeildar viðkomandi sveitarfélags í þessu sérstaka framlagi. Sveitarfélög sem fullnýta ekki heimildir til útsvarsálagningar fá þar með framlag í samræmi við þá nýtingu en í fyrri útfærslu hefðu þau fengið úthlutað eins og þau væru að fullnýta útsvarsheimildir. Þetta er því sanngjarnari leið sem nú er hér lögð til.

Þar sem úthlutun sérstaks framlags jöfnunarsjóðs vegna tímabilsins frá miðju ári 2014 til áramóta 2014/2015 fer nú ekki fram fyrr en á þessu ári, verði frumvarpið að lögum, er nú jafnframt kveðið sérstaklega á um hvernig staðið skuli að úthlutun þess.

Virðulegi forseti. Ég hef nú gert grein fyrir efni frumvarpsins og legg til að að lokinni þessari umræðu verði því vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar og 2. umr.