145. löggjafarþing — 30. fundur,  10. nóv. 2015.

tekjustofnar sveitarfélaga.

263. mál
[19:08]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Herra forseti. Það er alltaf flókið um að tala þegar maður fer yfir það hvað er sanngjarnast að gera í hvert skipti. Það skiptir máli í þessu sambandi að það er ekki verið að taka úr sambandi Jöfnunarsjóð sveitarfélaga almennt. Sú löggjöf stendur fyrir sínu og er alveg skýr og þær reglur eru alveg skýrar. Hér er verið að tala um afmarkað tilvik vegna sérstakra ástæðna út af álagningu bankaskatts og líka vegna stöðu viðkomandi sveitarfélaga sem verða af tekjum vegna séreignarsparnaðarins. Það er verið að koma til móts við þau sveitarfélög af því að höggið sem lenti á þeim var þyngra. Er það sanngjarnt? Menn geta spurt sig að því og haft á því ólíka skoðun. Það vill svo til að stærri sveitarfélögin urðu fyrir þessu tekjutapi.

Það skiptir gríðarlega miklu máli í þessu sambandi að átta sig á því að hér er verið að víkja frá meginreglu. Það er ekki verið að búa til nýja meginreglu, það er verið að víkja frá meginreglu í afmörkuðum tilvikum. Það er rétt að Samband íslenskra sveitarfélaga hafði áhuga vegna aðstöðumunar sveitarfélaganna og benti á þann ágalla sem fólst í jöfnunarregluverkinu vegna þessa máls því að það ber ábyrgð á því að vera í sambandi við sveitarfélög á landinu.

Hv. þingmaður þekkir það frá starfi sínu í umhverfis- og samgöngunefnd að haustið 2014 urðu minni sveitarfélögin óánægð, mörg hver, sérstaklega þau minnstu, með það að regluverk jöfnunarsjóðsins veitti þeim frekari hlutdeild en þetta gerir. Þetta er bara sjónarmið sem menn verða að vega og meta. Það er þá hlutverk nefndarinnar núna að gera það. Menn verða að gera það með heildarhagsmunina að leiðarljósi, hagsmuni allra sveitarfélaga í landinu og líta líka til þeirrar sérstöku stöðu sem er um að tefla þegar við erum að tala um álagningu sérstaks skatts og hvernig hann kemur niður á einstökum sveitarfélögum. Það skiptir máli fyrir okkur að líta heildstætt á málið, eins og ég sagði, og meta hvað menn vilja gera í þessu sambandi.

Það er alveg ljóst að á þessu máli, eins og mörgum öðrum málum, eru tvær hliðar, sérstaklega þegar verið er að víkja örlítið frá því sem venjan er. Ég ítreka það og legg þunga áherslu á að það er ekki verið að hagga grundvallarregluverki Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga með þessari lagasetningu heldur einungis mæta þessu tiltekna máli.