145. löggjafarþing — 30. fundur,  10. nóv. 2015.

Landhelgisgæsla Íslands.

264. mál
[19:16]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 52/2006, um Landhelgisgæslu Íslands, með síðari breytingum.

Í frumvarpinu er kveðið á um að Landhelgisgæslunni sé heimilt að fengnu samþykki ráðherra að taka þátt í samstarfsverkefni erlendis, enda verði slíkt verkefni ekki það umsvifamikið að stofnunin fái ekki sinnt lögbundnu hlutverki sínu samkvæmt lögunum. Landhelgisgæslan gerir ráðherra grein fyrir verkefninu og umfangi þess ásamt hættumati. Þannig verði skýrt kveðið á um í lögum heimild Landhelgisgæslu Íslands til að taka að sér samstarfsverkefni erlendis að fengnu samþykki ráðherra að fullnægðum tilgreindum skilyrðum.

Í gildandi lögum er vissulega kveðið á um heimild stofnunarinnar til að gera þjónustusamninga við einstök viðfangsefni á verksviði hennar en ekki er minnst sérstaklega á erlend verkefni og er frumvarpi þessu ætlað að taka af öll tvímæli um að sú lagaheimild sé fyrir hendi. Frumvarpið er í samræmi við ábendingar Ríkisendurskoðunar um að kveða þurfi skýrar á um slíka lagaheimild og tryggja þurfi markvissara eftirlit innanríkisráðuneytisins með því að erlend verkefni stofnunarinnar verði ekki það umsvifamikil að stofnunin geti ekki sinnt hlutverki sínu hér við land með ásættanlegum hætti.

Landhelgisgæslan hefur sinnt verkefnum erlendis frá árinu 2010 með það fyrir augum að afla tekna svo halda megi varðskipum, þyrlum og flugvél í rekstri á aðhaldstímum í ríkisfjármálum. Verkefnin hafa gert stofnuninni kleift að þjálfa starfsfólk, þróa þekkingu þess og afla fjár til að sinna viðhaldi á flugvél, þyrlum og varðskipum. Landhelgisgæslan hefur meðal annars unnið mikilvægt starf fyrir Landamærastofnun Evrópusambandsins (Frontex) og Fiskveiðieftirlitsstofnun Evrópusambandsins (EFCA), í Miðjarðarhafi og við strendur Vestur-Afríku. Þá skal tekið fram að nú er unnið í samvinnu við Landhelgisgæslu Íslands að áætlunargerð fyrir Gæsluna til lengri tíma þar sem komi fram hvaða þjónustustigi skuli að lágmarki haldið uppi hér við land, skilgreind verði lykilmarkmið og árangursmælikvarðar.

Frumvarpið miðar að því að auðvelda kerfisbundið eftirlit með starfsemi Landhelgisgæslu Íslands. Gera má ráð fyrir að Gæslan taki áfram þátt í erlendum verkefnum og er því skýr lagagrundvöllur mikilvægur. Stofnunin hefur lagt áherslu á að þessi verkefni hafi ekki áhrif á þá grunnþjónustu sem henni ber að veita við löggæslu og öryggi við Ísland. Að sama skapi hafa þau verið nauðsynleg til að styðja við þessa grunnþjónustu þegar Gæslan hefur þurft að hagræða í rekstri.

Hæstv. forseti. Ég hef gert grein fyrir aðalatriðum frumvarpsins og legg til að málinu verði vísað til allsherjar- og menntamálanefndar og 2. umr.