145. löggjafarþing — 30. fundur,  10. nóv. 2015.

Landhelgisgæsla Íslands.

264. mál
[19:19]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir ræðuna. Fram kom í máli hæstv. ráðherra að áherslan sé á það að verkefni erlendis verði ekki svo umfangsmikil að þau hafi áhrif á verkefni hér innan lands og einnig kom fram að tilgangurinn með frumvarpinu væri að skýra betur þátttöku okkar, að koma lagastoð inn í lögin um þátttöku okkar í verkefnum erlendis.

Í mínum huga er þetta ákvæði ansi opið. Mig langar því að spyrja hæstv. ráðherra í ljósi þess að Ísland er herlaus þjóð en á mjög oft í samstarfi við heri erlendis í verkefnum, hvort það sé ekki alveg tryggt að hér sé ekki verið að opna á einhvern hátt fyrir þátttöku í hernaðarlegum aðgerðum eða þátttöku Landhelgisgæslunnar í hernaðarlegum æfingum á erlendri grundu, hvort það sé ekki alveg skýrt að það fylgir ekki með í frumvarpinu.