145. löggjafarþing — 30. fundur,  10. nóv. 2015.

Landhelgisgæsla Íslands.

264. mál
[19:21]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir skýr svör. Ég er gríðarlega ánægð með að heyra að engar hernaðarlegar æfingar hanga á spýtunni þarna því að ég er alveg sammála því sem að öðru leyti kemur fram um að mikilvægt sé að hafa lagastoð fyrir þeim verkefnum sem við erum nú þegar að sinna. Ég hef lesið skýrslu Ríkisendurskoðunar og er sammála hæstv. ráðherra um að þær ábendingar sem þar koma fram eru réttmætar og það er gott að tekið sé á því. En það er ekki alveg út í loftið sem ég lagði þessar spurningar fram því að nú þegar er það til dæmis þannig að þyrlubjörgunarsveit Landhelgisgæslunnar gegnir mikilvægu hlutverki þegar kemur að loftrýmisgæslu hér á landi. Þess vegna þótti mér mikilvægt að fá það fram í umræðunni að með frumvarpinu, sem er eins og ég segi dálítið opið í orðalagi, sé ekki meiningin að opna á hernaðarlega þátttöku okkar Íslendinga.