145. löggjafarþing — 31. fundur,  11. nóv. 2015.

störf þingsins.

[15:01]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Mig langar að gera að umtalsefni hér mjög mikilvægt en alvarlegt málefni. Mörg störf okkar þingmanna sameinast í þessu málefni eða snerta það á einn eða annan hátt. Það er þá fyrst og fremst samfélagslegur kostnaður sem er kannski það sem við ættum helst að huga að en efnahagsleg áhrif eru líka þarna undir og vinna okkar í fjárlögunum. Það kom fram að þetta gæti tengst peningastefnunni á opnum fundi efnahags- og viðskiptanefndar í morgun. Heilbrigðiskerfið kemur þar við sögu, hvernig við getum dregið úr kostnaði og nýtt fjármunina í betri þætti þar. Það getur aukið framleiðnina í samfélaginu ef við tökum á þessu málefni. Þetta er mikið byggðamál og varðar náttúruvernd og uppbyggingu atvinnulífs svo fátt eitt sé nefnt. Ég er að tala um þann mikla vágest í samfélaginu sem heitir umferðarslys. Þau eru mjög tíð og þeim er því miður ekki að fækka.

Ég bið fólk að athuga að þegar banaslys í umferðinni og alvarleg umferðarslys eru tekin saman þá er banaslysum að fjölga töluvert, því miður, sem er ekki gott. Ef við tökum saman banaslys og alvarleg slys þá eru þau færri í ár en síðastliðið ár. Þetta er eitthvað sem við verðum að gera. Það kom fram einmitt á fyrrnefndum fundi efnahags- og viðskiptanefndar í morgun að opinber fjárfesting mætti vera meiri og þá sérstaklega í innviðum til að auka framleiðni í samfélaginu en með þeirri aðgerð mundum við líka að auka umferðaröryggi.

Þetta eigum við að hafa í huga núna þegar við vinnum að fjárlögunum: Hvernig getum við dregið úr samfélagslegum kostnaði með auknu umferðaröryggi? Hvernig getum við hagrætt í ríkisrekstri með auknu umferðaröryggi? Hvernig getum við aukið framleiðnina í íslensku samfélagi með uppbyggingu samgöngumannvirkja og innviða? Hvernig getum við eflt náttúruvernd með því að dreifa ferðamönnum betur (Forseti hringir.) og stuðlað að byggðasjónarmiðum og uppbyggingu atvinnulífs? (Forseti hringir.) Þetta bið ég ykkur, kæru þingmenn, að hafa í huga.


Efnisorð er vísa í ræðuna