145. löggjafarþing — 31. fundur,  11. nóv. 2015.

störf þingsins.

[15:12]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Mig langar að gera að umtalsefni ansi táknræna, skemmtilega og virðingarverða athöfn sem var fyrir utan þinghúsið í hádeginu. Þar komu fulltrúar Öryrkjabandalagsins saman og vildu hitta okkur þingmenn og færa okkur gjöf sem var fugl sem flytur óskir fatlaðs fólks, ákaflega mikið og gott listaverk, minjagripur, táknræn gjöf til okkar þingmanna.

Stærsta ósk Öryrkjabandalagsins fyrir hönd skjólstæðinga sinna er að við þingmenn sameinumst um það á þessu þingi að fullgilda samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Hann var samþykkur á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 13. desember 2006, undirritaður fyrir Íslands hönd 30. mars 2007, svo að í rauninni er hálft skrefið stigið. Það sem okkur vantar er að fullgilda samninginn. Það eru aðeins sex þjóðir í heiminum sem voru aðilar að samningnum sem hafa ekki fullgilt hann og Ísland er ein þeirra þjóða. Ég tel það vera okkur til vansa að við skulum ekki hafa gert það. Það var þess vegna sem ég ásamt 12 öðrum þingmönnum, og við hefðum getað verið miklu fleiri, flutti þingsályktunartillögu, sem bíður fyrri umræðu, um að Alþingi álykti að ríkisstjórnin skuli fullgilda þennan samning. Ég vil með þessum orðum hvetja alla þingmenn, bæði meiri hluta og minni hluta, til að sýna að við getum sameinast um svona gott mál. Tökum undir óskir Öryrkjabandalagsins og uppfyllum þá gjöf í raun og veru, leyfum fuglinum sem er í krukkunni að fljúga og sýnum þannig hug okkar í verki.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna