145. löggjafarþing — 31. fundur,  11. nóv. 2015.

störf þingsins.

[15:15]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Ég ætla að fara yfir störfin þennan morguninn þar sem fyrir komu þrjú stór mál sem mikilvægt er fyrir þingið að vakta. Fyrst áttum við í hv. efnahags- og viðskiptanefnd opinn fund með fulltrúum Seðlabankans þar sem skýrsla peningastefnunefndar var rædd og sú vaxtaákvörðun sem var tekin síðast. Allar ákvarðanir Seðlabankans snúa að efnahagslegri velferð og þar er verðstöðugleiki höfuðmarkmið. Það er tvennt sem mér finnst mikilvægt að draga fram frá þessum fundi. Í fyrsta lagi vaxtahækkunin sem er í þeim tilgangi að slá á eftirspurn með skerðingu ráðstöfunar, þá er á sama tíma erfitt að fullyrða um þolmörk atvinnulífs og heimila gagnvart vaxtastiginu. Í öðru lagi því tengt er ástæða til að hafa áhyggjur af því að kunnuglegur vítahringur kostnaðarverðbólgu geti farið í gang með tilheyrandi neikvæðum áhrifum fyrir fyrirtæki og almenning.

Á eftir þessum fundi fylgdi fundur opinn fjölmiðlum með fulltrúum Indefence annars vegar og Seðlabankanum hins vegar um uppgjör fallinna fjármálafyrirtækja á grundvelli stöðugleikaskilyrða, afar mikilvægur fundur sem liður í því að upplýsa og auka frekar skilning og fá frekari vissu fyrir því að við losun hafta sé fjármálastöðugleikinn varinn og lífskjör almennings í engu skert.

Að endingu vil ég svo taka undir með hv. þm. Kristjáni L. Möller um stefnumót okkar með fulltrúum Öryrkjabandalags Íslands þar sem við tókum við óskum um aukin mannréttindi en stærsta óskin er að samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks verði fullgiltur og í kjölfarið lögfestur. Ég vil hér koma á framfæri þökkum fyrir þá táknrænu hvatningu sem við fengum og það er ekki eftir neinu að bíða. Við eigum að fullgilda samninginn og lögfesta og láta hann um leið verða okkur verkfæri og leiðarljós.


Efnisorð er vísa í ræðuna