145. löggjafarþing — 31. fundur,  11. nóv. 2015.

störf þingsins.

[15:24]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Sendinefnd Seðlabanka Íslands gekk á fund hv. efnahags- og viðskiptanefndar í morgun og ég get ekki sagt að málflutningur seðlabankamanna á þeim fundi hafi aukið manni mikið bjartsýni um þátttöku þeirra í almennri hagstjórn á Íslandi. Málflutningurinn minnti mann heldur meira á athafnir katta í sandkassa sem klóra yfir það sem þeir skilja eftir. (Gripið fram í: Hvað skilja þeir eftir?)

Það kom meðal annars fram í máli aðalhagfræðings að verðbólga hér á Íslandi er mest búin til innan lands og það er alveg rétt. Seðlabankinn hefur stuðlað að því, með því að hækka hér vexti umfram það sem þarf að gera, alveg klárlega, og hefur þar með aukið kostnað lítilla fyrirtækja og meðalstórra sem eiga ekki annan kost en að velta þeim kostnaðarhækkunum út í verðlag.

Síðan var eitt sem ég verð bara að taka ofan og hneigja mig fyrir þegar aðalhagfræðingurinn sagði um olíuverð, með leyfi hæstv. forseta: Ég óttast að þetta fari að breytast þó ekki væri annað en þetta hætti að lækka. Þá dragast tjöldin frá og við sitjum uppi með þennan vaxandi innlenda verðbólguþrýsting. Ég bara hneigi mig í auðmýkt. Ég held að það séu allir helstu sérfræðingar í heimi sannfærðir um að olíuverð verði lágt hér til 10, 15 ára tímabils. En stýrivextir á Íslandi í dag þurfa að vera háir út af því að hætta er á því að olíuverð inn til Íslands hækki hér eftir 10 til 15 ár.

Ég verð að viðurkenna að þetta veldur mér miklum áhyggjum, herra forseti. Ég verð að segja það líka að með því sem seðlabankamenn sögðu í morgun þá voru þeir í sjálfu sér að gangast við því að þeirra eigin aðgerðir í vaxtamálum valda verðbólgu innan lands og valda því að viðskiptakjör fólksins í landinu og lítilla fyrirtækja eru verri en þau þyrftu að vera. Það verður að gera einhverja bragarbót á þessu í Seðlabankanum.


Efnisorð er vísa í ræðuna