145. löggjafarþing — 31. fundur,  11. nóv. 2015.

störf þingsins.

[15:26]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég ætla að gera tvennt að umtalsefni í dag, það er þessi krukka með origami-fugli sem okkur var afhent í dag þegar Öryrkjabandalag Íslands kom hér og afhenti innanríkisráðherra 17 þús. undirskriftir. Þessi trana á að boða frið og ró og er boðberi óska eða það er að minnsta kosti japönsk þjóðtrú.

Það sem við sem þingmenn þurfum hins vegar að hafa í huga, sem og framkvæmdarvaldið, er að það er ekki nóg að setja lög eða innleiða samninginn. Við þurfum að tileinka okkur hugmyndafræðina þegar kemur að setningu laga almennt. Í ljósi þess að hér hefur töluvert verið rætt um ódýrara húsnæði og breytta reglugerð hafa þær hugmyndir meðal annars falist í því að ekki þurfi allar íbúðir að vera aðgengilegar fyrir alla. Ég held að við þurfum að hugsa vel út fyrir rammann og hugleiða það að tileinka okkur í verki en ekki bara í orði. Það er ekki nóg að innleiða þennan samning.

Það er annað sem mig langar til að ræða hér í dag af því að mér ofbýður þegar verið er að boða til funda. Hér eru tvö fundarboð, annað frá Samtökum atvinnulífsins og hitt frá Samtökum iðnaðarins. Maður spyr sig: Eru þetta málefni karla, eða bara kvenna, eða eru þetta kannski málefni beggja kynja? Mætum þörfinni – íbúðamarkaður í brennidepli er yfirskrift hjá Samtökum iðnaðarins þar sem á að fjalla um nýja greiningu Samtaka iðnaðarins á íbúðamarkaði. Þar eru fimm karlar sem ætla að vera með erindi. Að vísu bjóða þeir upp á fundarstjóra sem er kona. Það er nú fallega gert af þeim. Síðan er ráðstefna um sæstreng til Evrópu hjá Samtökum atvinnulífsins og þar eru sex karlar með erindi.

Virðulegi forseti. Í hvaða veröld lifir það fólk sem hér stjórnar risastórum samtökum og talar um mikilvæg samfélagsleg mál að ætla að bjóða íslensku þjóðinni og íslenskum konum upp á það að vera eingöngu með karla að lesa yfir konum og bjóða þeim svo að vera (Forseti hringir.) duglegar að taka þátt í fundunum? Þetta er óboðlegt, virðulegi forseti.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna