145. löggjafarþing — 31. fundur,  11. nóv. 2015.

störf þingsins.

[15:31]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Fyrirsögn, í Fréttablaðinu minnir mig, vakti athygli mína í vikunni. Það var talað um ungan mann sem hafði leitað á bráðamóttöku um miðja nótt, hann bað um að fá að tala við geðlækni en var sendur heim og sagt að geðdeildin yrði opnuð kl. 12 daginn eftir. Á sama tíma er sjálfsvígstíðni á Íslandi með því hæsta sem gerist í heiminum. Sjálfsvígstíðni ungra manna er helsta dánarorsök þeirra. Mér finnst þetta grafalvarlegt og ég skammast mín fyrir að við sem þjóð gerum ekki betur í þessum málaflokki. Ég veit að ef ég kæmi inn á bráðamóttöku eða leitaði mér aðstoðar vegna botnlangabólgu mundi ég strax fá aðhlynningu jafnvel þótt ég gæti lifað tvo daga í viðbót. Það væri kannski ekki bráðavandi en ég fengi aðhlynningu.

Þegar málefni geðsjúkra og þeirra sem eiga við andleg veikindi að stríða eru annars vegar er eins og við séum bara einhvers staðar aftur í fornöld. Aðgengi að sálfræðingum er afar lítið og lélegt. Örfáir barna- og unglingageðlæknar eru starfandi á landinu, ég held bara einn á landsbyggðinni. Við setjum of lítinn pening í þetta og of lítil áhersla er lögð á þennan málaflokk, rétt eins og við setjum geðræn vandamál eða þessi veikindi í einhvern annan flokk en ef ég skyldi handleggsbrotna, vera með hjartasjúkdóm eða eitthvað því um líkt. Þetta er ekki boðlegt.

Ég velti fyrir mér núna þegar við erum að tala um fjárlögin og að við ætlum að fara í skattalækkanir aftur á millitekjufólk og þá sem betur mega sín hvort það sé forgangsröðunin. Væru þeir 5 milljarðar sem ríkið verður af ekki betur nýttir í þessum málaflokki? Segir það ekki svolítið um okkur sem þjóð að við getum ekki veitt fólki, ungum mönnum, börnum, unglingum, sem eiga við geðræn vandamál að stríða, góða (Forseti hringir.) þjónustu? Þetta kostar okkur, þetta kostar mannslíf.

Virðulegi forseti. Þetta er ekki í lagi.


Efnisorð er vísa í ræðuna