145. löggjafarþing — 31. fundur,  11. nóv. 2015.

störf þingsins.

[15:33]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Herra forseti. Þrátt fyrir ýmsa vankanta í málefnum er varða börn hér á landi eru þó mjög ánægjulegir hlutir að gerast í þessum málaflokki víða um land. Vil ég nefna ART-verkefnið í því sambandi. ART stendur fyrir „Aggression Replacement Training“ og snýst um félagsfærni, sjálfstjórnar- og siðferðisþjálfun barna með hegðunarvanda.

Hér á landi hefur verið unnið með börnum og fjölskyldum þeirra í flestum skólum, t.d. á Suðurlandi, og námskeið haldin fyrir starfsfólk skóla, félagsþjónustu og heilbrigðisþjónustu víða um land. Í ART-teymi Suðurlands starfa þrír starfsmenn með mikla þekkingu og reynslu af meðferðarmálum. Þeir handleiða og styðja það starfsfólk sem þarf að fara af stað með ART-þjálfun í fyrsta sinn.

Annar stór þáttur í starfsemi ART-verkefnisins er aðstoð við fjölskyldur þeirra barna sem eiga við þessa erfiðleika að etja. Mikil ánægja hefur verið með „fjölskylduartið“ eins og það er kallað og alls hafa 250 fjölskyldur fengið þá þjónustu hjá teyminu á þeim átta árum sem það hefur starfað og má sjá mikinn árangur af þessari vinnu bæði hjá börnunum og fjölskyldunni í heild, um 88%. Innlagnir á neyðarvistun Stuðla fækkaði úr 11 í eina á árunum 2007–2013. Félags- og skólaþjónusta á svæðinu sem og Heilbrigðisstofnun Suðurlands hefur unnið með teyminu í fjölskylduartinu og hefur starfsfólk þessara stofnana einnig séð mikinn árangur hjá þeim börnum og fjölskyldum sem hafa farið í þjálfunina.

ART-verkefnið á Suðurlandi hefur verið á fjárlögum síðustu ár og var síðast inni á 20/20-áætlun fyrri ríkisstjórnar. Nú eru hins vegar blikur á lofti, herra forseti, ART-verkefninu mun ljúka frá og með næstu áramótum ef ekki verður tryggt fjármagn til rekstursins. Velferðarráðuneytið veitti 27 millj. kr. til reksturs verkefnisins á Suðurlandi í fyrra og sveitarfélög svæðisins greiddu rúmlega 8 milljónir.

Ég skora á félagsmálaráðherra að bregðast skjótt við og tryggja þessu verkefni áframhaldandi líf og fá viðurkennd rannsóknarteymi til að rannsaka árangur verkefnisins og ákvarða um framhaldið í ljósi þeirra niðurstaðna sem fram munu koma. Þetta sparar ríkinu bæði félagslega og efnahagslega til langs tíma litið.

Herra forseti. ART er nefnilega smart.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna